Í veiðibækur eru skráðir 380 laxar, 664 bleikjur og 46 urriðar.
Laxveiðin skiptist þannig:
Eftir svæðum:
1. svæði. 122 laxar 2. svæði. 65 laxar 3. svæði. 115 laxar 4. svæði. 69 laxar Silungasv. 9 laxar |
Eftir mánuðum:
Júní 8 laxar Júlí 132 laxar Ágúst 199 laxar Sept 41 lax |
Eftir agni:
Fluga 265 laxar Spónn 59 laxar Maðkur 56 laxar |
Eftir kyni:
|
Aflahæstu veiðistaðir:
Kolbeinspollur. 41 lax Systrahvammur. 24 laxar Malareyri. 23 laxar Neðra Klif. 23 laxar Vatnsleysuhylur. 18 laxar Litlabreiða. 17 laxar |
Stærstu laxar:
|
Nú eru aðeins örfáir dagar eftir af tímabilinu en því lýkur á efri svæðunum á sunnudaginn 17. september. Áfram verða seld veiðileyfi á hóflegu verði í haustbleikjuna á veiðisvæði 1. og eru þau leyfi komin í sölu hérna á vefnum sem og í Lindinni við leiruveg.
Við talningu í veiðibók í dag kom í ljós að 350 laxar hafa verið færðir til bókar, 470 bleikjur og 43 urriðar. Eitthvað vantar upp á þessar tölur þar sem veiði af 5. og 6. svæði er skráð að hluta á Illugastöðum.
Við hvetjum þá sem einhverra hluta vegna eiga eftir að skrá veiði frá því í sumar til að klára þau mál hið fyrsta.
Af stórum fiskum má nefna að nú fyrir stuttu veiddist 98 cm fiskur í Ferjupolli. Sá stærsti í sumar er þó vafalaust laxinn sem Guðmundur Gunnarsson fékk í Árbugsárós í lok ágúst. Sá mældist 101 cm og var honum komið í klakkistu til undaneldis.
Við hjá Flúðum þökkum þeim sem heimsóttu Fnjóská í sumar og vonum að þið hafið átt góðar stundir. Við þökkum einnig þeim fjölmörgu sem heimsóttu vefinn okkar og notfærðu sér hann til kaupa á veiðileyfum.
Mynd: Guðmundur Gunnarsson með 101 cm hæng sem er í þann mund að fara í klakkistu
Um 160 laxar eru komnir á land og er það nokkrum löxum meira en á sama tíma í fyrra, en þá fór áin í 450 laxa. Mikið sést af laxi og bleikju á 1. svæði og veiðist bleikjan vel en laxinn síður, þó kemur einn og einn á land. Af efri svæðunum hefur 4. svæði komið best út , en 2. og 3. svæði eru að taka vel við sér síðustu daga.
Lítið fréttist frá silungasvæðunum, menn eru þó töluvert að fara þangað en mikil tregða virðist vera hjá veiðimönnum að láta vita af veiði. Ljóst er að við þurfum ráða bót þar á með einhverjum ráðum.
Tveir stórlaxar náðust á mynd þann 1. ágúst og sjást þeir hér fyrir neðan, sá minni er 15 pund og féll hann fyrir rauðri Frances í Kolbeinspolli.
Veiðimenn sem voru allan daginn á 1. svæði 12. júlí fengu 3 laxa, 6-8 punda, og 24 bleikjur, 2-5 punda.
15. júlí fengu veiðimenn á 1. svæði 6 laxa og 10 bleikjur, þetta er hálfs dags veiði.
Einn og einn lax kemur af efri svæðunum og stutt í að þau komi sterk inn í veiðina, enda fer allur fiskur nú upp stigann á 1. svæði.
Ca. 60 laxar eru komnir á land og eitthvað á annað hundrað bleikjur, þetta er hledur meiri veiði en á sama tíma í fyrra.
Fnjóská er nú að klífa 50 laxa múrinn.
Engin mokveiði, en 2-3 laxar koma á flestum vöktum á 1. svæði og góðar bleikjur með.
8. júlí kom einn lax úr Nesbugðu á 4. svæði.
10. júlí fengu veiðimenn 2 laxa á kvöldvaktinni, báðir komu þeir úr Nesbugðu, 12 punda og 9 punda. Einnig settu menn í tvo aðra laxa, einn á Systrahvammi og annan á Mógilsbreiðu.
Eflaust eru komnir fleiri á land af efri svæðunum, en eins og venjulega gengur illa að fá menn til að skrá aflann.
Áin hefur sjatnað verulega síðustu vikuna og opnaði það greiða leið fyrir fiskinn upp laxastigann.
Fyrsti laxinn á svæðunum ofan stiga veiddist í morgun og var það 9 punda hrygna er veiddist í Símastreng á svæði 3. Nú fyrr í vikunni setti veiðimaður í tvo laxa í veiðistaðnum Flúðum á svæði 4 en þeir sluppu báðir.
Veiðst hafa um 30 laxar og eitthvað af sjóbleikju. Nánast allt hefur veiðst á svæði 1 og eru þetta mest megnis 2 ára lax og stórar sjóbleikjur eða um 3-6 punda.
Stjórn Flúða var við Fnjóská gær til að gera klárt fyrir tímabilið en veiði hefst á sunnudag. Veðurblíðan setti sitt mark á ána en hún var töluvert lituð og vatnsmikil og bætti í er líða fór á daginn. Mátti sjá ána litast meira eftir því er neðar dró í dalnum þar sem alla leið fossuðu lækir yfir bakka sína og út í á.
Stjórnarmenn brugðust ekki skyldu sinni þrátt fyrir aðstæður og settu saman nokkrar stangir til að athuga hvort eitthvað bæri á laxi á hefbundnum vorveiðistöðum. Ekki sást í nokkurn lax og skyldi engan furða ef myndirnar eru skoðaðar.
Ef rifjað er upp hvenær laxinn hefur mætt síðustu ár þá sáust fyrstu laxarnar þann 9. júní 2003, sumarið 2004 þann 18. júní og sumarið 2005 þann 16. júní. Því má reikna með að hann sé mættur eða við það að skella sér upp í á.
Eins og fram hefur komið þá hefst veiði á sunnudaginn 18. júní og þó áin hafi verið lituð í gær er hún afar fljót að jafna sig. Vatnið er mikið og nægur snjór ennþá til fjalla sem lofar góðu fyrir veiðina næstu vikur.
Nú hafa veiðileyfi fyrir næsta sumar verið sett á vefinn og hægt að kaupa líkt og síðustu sumur. Leyfin sem hafa verið sett inn eru dagar á svæði 5. og 6. og leyfi fyrri hluta sumars á svæðum 1. - 4. Uppselt er á svæði 1. - 4. frá miðjum júlí og fram til loka ágúst en ennþá eru laus leyfi seint í ágúst og í september og verða þau færð inn fljótlega.
Aðalfundur Flúða var haldinn á dögunum og ásamt mörgu fleiru var þar rýnt í veiðitölur og Dr. Tumi Tómasson í félagi við Pétur Brynjólfsson héldu fyrirlestur um stöðu mála varðandi ræktunarátakið í Fnjóská.
Þeir sögðu frá því að samkvæmt rafveiðum væri náttúrulegt klak í góðu ástandi, skilyrði hefðu breyst til hins betra í ánni og við það væru nú laxaseiði að meirihluta að dvelja 3. ár í ánni áður en þau færu til sjávar í stað þess að dvelja 4. - 5. ár eins og verið hefur.
Síðasta sumar gaf 452 laxa í heildina og var meðalþyngd 3,6 kg. Gaman er að segja frá því að veiðin dreifðist mjög vel og öll laxasvæðin voru yfir 100 löxum. Svæði 1. var með 103 laxa, svæði 2. með 117, svæði 3. með 115 og svæði 4. með 106 laxa. Aflahæsti veiðistaður var að þessu sinni Kolbeinspollur með 52 laxa eða 11,5% af heildarveiði. Næst á eftir kom Ferjupollur með 37 laxa. Góð veiði var í Kolbeinspolli langt fram á haust og veiddist vel þar í september sem og aðra mánuði og var þá bæði um nýgengna sem og legna fiska að ræða. Það vekur mikla athygli að öll laxasvæðin gáfu af sér laxa í júní síðasta sumar, gengið var á elstu menn og ekki nokkur þeirra man til þess að það hafi gerst áður.
Nú hafa um 30 þúsund seiði verið í tjörninni við Draflastaði frá miðjum vetri og koma þau til með að dreifast í sleppitjarnir víðs vegar um ána á næstunni. Einnig bætast við 10 þúsund seiði í vor sem fara í tjarnirnar.
Síðasta vor fóru 40 þúsund gönguseiði til sjávar og sumarið þar á undar var sleppt töluverðu magni af sumaröldum seiðum sem ættu að vera að týnast niður núna sem gönguseiði. Því er engin ástæða til annars en bjartsýni á næstu sumur og öruggt að margir eiga eftir að eiga ánægjulega daga við Fnjóská.
Meðfylgjandi myndir eru frá síðasta sumri. Á efri myndinni má sjá Pétur Brynjólfsson með annan lax sumarsins sem var 5,5 kg og fékkst á Malareyri þann 19. júní. Þess má geta að Hákon Guðmundsson fékk fyrsta lax sumarsins sama morgun. Myndin hér að neðan er af bikarlaxinum og er það Bragi Hlíðar Kristinsson sem fékk þennan 18 punda lax í Vatnsleysuhyl þann 4. september.