Fréttir

30 jún. 2010

Ágæt veiði og lax kominn á land á svæði 2

Fnjóská er nú komin í rúmlega 40 laxa og flestir tveggja ára fiskar. Einnig hafa veiðst um 40 sjóbleikjur og þær flestar í stærra lagi þetta árið, margir hafa haldið sig vera með vænan lax undir þar til þær hafa náð landi enda er sjóbleikja á bilinu 3-7 pund afar spræk svona nýgengin. Þetta er aldeilis góð veiði miðað við að aðeins hafi verið veitt á tvær stangir á dag fyrir utan nokkrar skreppur á efri svæðin.

Á laugardagsmorgun fékkst lax á svæði 2 , var þar um að ræða smálax sem fékkst í Vegeirsstaðarkvísl. Síðustu daga hafa sést nokkri smálaxar niður á svæði 1. í bland við stórlaxana en ennþá er tveggja ára fiskurinn í meirihluta.

Þeir sem voru að veiða í gærmorgun lönduðu 5 löxum og misstu tvo til viðbótar, þar af einn stóran í Rauðhyl en þar sáu þeir eina 7-8 væna laxa. Hinir voru á Skúlaskeiði, Malareyri, Efra lækjarviki og Kolbeinspolli, tveir smálaxar um 5-6 pund en hinir 11-14 punda. Einnig fengu þeir 5 bleikjur og tvær það vænar að þeir töldu að um lax væri að ræða þangað til þeim var landað.

Við skoðuðum veiðitölur frá síðasta sumri, þá veiddust 10 laxar í júní og allir á svæði 1. Enginn lax fékkst á efri svæðunum í júní. Þar truflaði mikið og kalt vatn og var áin mjög erfið viðureignar þangað til fyrstu dagana í júlí. Fiskur gekk illa upp og hékk niðurfrá lengi frameftir en núna í ár var Fnjóská mjög fljót að jafna sig, ásamt því að lax og bleikja gekk snemma og fiskurinn rýkur uppeftir þessa dagana.

Við höfum ekki heyrt frá þeim sem voru að veiða í gærkveldi en segjum fleiri fréttir um leið og þær berast. Við hvetjum menn til að senda okkur fréttir og veiðisögur.

Mynd: Litlabreiða á svæði 3.

Til baka

Veiðileyfi

Fnjóská
Ekkert laust eins og er.

Fnjóská - Svæði 5
Ekkert laust eins og er.