Fréttir

15 ágú. 2010

Veiðisaga og fleira

Nú hafa verið færðir 637 laxar til bókar og veiðibókin á netinu uppfærð. Undanfarna daga hefur veiði verið góð og ennþá að veiðast lúsugir laxar. Enn sem fyrr viljum við minna menn á að skrá veiðina fljótt og vel, en of mikið er um að trassað sé að skrá og við vitum af nokkrum veiðimönnum sem hafa veitt vel en ekkert skráð!

Við fengum skemmtilega veiðisögu senda og látum hana flakka.

Eftir að vera búinn að aka meðfram Fnjóská ótal sinnum lét ég drauminn rætast. Á heimasíðu Stangaveiðifélags Flúða fann ég lausa seinni vakt á svæði 3, og með smá fingrafimi á takkaborðinu var leyfið staðfest. Með mér á stöngina var Aðalsteinn bróðir (af mörgum kallaður Addi Lögga,og ekki af ástæðulausu!) en vegna anna gat hann ekki byrjað kl. 4, en sagðist koma seinna.
Ég var mættur efst á svæði 3, við veiðistað nr. 52 (Flúðir) um kl. 15.30 og setti saman einhenduna í bakandi sólskini, logni og 22 stiga hita. Á mínútunni 4 flaug rauð Frances út í á, og sæluhrollur fór um mig allan. U.þ.b. korteri seinna var ég kominn út í miðja á og neðarlega á veiðistaðinn, ég kastaði þvert á strauminn að vesturbakkanum og lét fluguna reka þar til línan hafði rétt úr sér. Í einu kastinu hætti línan að reka,, ég strippa,,, hver fjárinn fast í botni! Ég vind inn á hjólið, herði átakið til að losa úr festunni, en finn þá titring og smákippi (sem fóru eftir línunni, í stöngina og þaðan alla leið niður í tær á mér..) LAAAAAAAX !! Stöngin í keng en laxinn hreifði sig hvergi. Eftir allanga stund fer laxinn að pirrast á reipitoginu og fer að svamla um á litlu svæði en endar hringsólið á ofsaferð meðstraums svo að söng og hvein í hjólinu, flugulínan og slatti af undirlínu hurfu á svipstundu. Ég herði á bremsunni og byrja að ösla í land, leit upp, enginn Addi sjáanlegur, í sömu andrá hvarf mér sýn, heyrn og vit og vöðlur fylltust ísköldu Fnjóskárvatni! Eftir að hafa snúið mér í vænlega stöðu undir yfirborðinu kenndi ég botns og gat staðið upp, blásandi eins og stórhveli á Skjálfandaflóa.
Ekki sleppti ég stönginni og eftir að vera búinn að ná áttum (og andanum) fann ég að allt var laust. Ég spólaði inn, skjálfandi af geðshræringu, en viti menn, laxinn hafði snúið við og lá nú í makindum á tökustað og ennþá fast í honum! Heyri ég þá hlátur mikinn af árbakkanum, jú Addi loksins mættur. Eftir nokkrar smárokur fram og til baka var laxinn farinn að sýna þreytumerki og ég tala nú ekki um veiðimanninn, bað ég Adda að ná í stóra háfinn þvi hér væri stórlax á ferð,, ''háfinn, nei nei ég hef nú handtekið stærri ólátabelgi en þennan'' sagði hann og glotti. Ég var kominn upp á bakkann og gat í 3 tilraun strandað laxinum og Addi sporð/handtók hann eins og ekkert væri. Slagurinn hafði þá tekið rúman klukkutíma. Sem betur fer var klakkista innan seilingar og eftir lengdarmælingu (88 cm) fór laxinn beint í hana. Fórum við bræður síðan niður með ánni, sáum og urðum varir við fisk á öllum veiðistöðum en hann var tregur til að taka. Enduðum við kvöldið á nr. 44 (Vatnsleysuhylur) þar sem laxinn var að stökkva út um allt, en lystarlaus á agn okkar.

Kveðja
Jon Christian

Til baka

Veiðileyfi

Fnjóská
Ekkert laust eins og er.

Fnjóská - Svæði 5
Ekkert laust eins og er.