Veiðitillhögun

Neðri hluti Fnjóskár nefnist gjarnan laxasvæði árinnar, því þar veiðist lang stærstur hluti laxanna ár hvert, en auk þess er þar góð silungsveiði. Þarna er ánni skipt í fjögur svæði og er veitt á tvær stangir á hverju þeirra:

1. svæði
Nær frá ósum og að merki fyrir ofan Pétursspor (nr. 22), sem er nokkuð fyrir ofan Laufásfossa og laxastigann sem í þeim er. Merktir veiðistaðir eru nr. 1 - 22, og eru þeir allir neðan við laxastigann nema veiðistaðir 18-22.

2. svæði
Er um miðbik laxasvæðisins og nær frá merki ofan við Pétursspor og upp að merki sem er ofan við Végeirsstaðakvísl (nr. 38) skammt ofan við veiðihúsið Flúðasel í landi Böðvarsness. Merktir veiðistaðir eru nr. 23 - 38.

3. svæði
Er um miðbik laxasvæðisins og nær frá merkinu ofan við Végeirsstaðakvísl og upp að merki við Þjóðvegi 1 ofan við Flúðir (nr. 52). Merktir veiðistaðir eru nr. 39 - 52.

4. svæði
Byrjar við merki merki við Þjóðvegi 1 og nær upp að merki ofan við Hólmabreiðu (nr. 68) . Merktir veiðistaðir eru nr. 53 - 68.


Efri hluti Fnjóskár er gjarnan nefndur silungasvæðið, enda er uppistaðan í veiðinni silungur þó svo að nokkrir laxar veiðist þar á hverju ári. Þarna er eitt svæði með 2 stöngum:

5. svæði
Efsta veiðisvæði okkar og nær það frá merki ofan við Hólmabreiðu upp að ármótum Bakkaár og Fnjóskár rétt neðan við bæinn Reyki. Merktir veiðistaðir eru nr. 69 - 80 og þaðan er ómerkt upp að Bakkaá.


Umgengni:
Veiðimenn eru beðnir um að loka alltaf hliðum á eftir sér og aka ekki um tún og ótroðnar slóðir nema með leyfi landeigenda. Einnig eru veiðimenn beðnir um að sýna landeigendum og öðrum veiðimönnum tillitssemi, ganga vel um landið og skilja ekki eftir rusl við ána.

Agn:
Leyfilegt er að veiða á flugu og spón á öllum svæðum frá opnun árinnar og til hádegis 11. ágúst. Frá hádegi 11. ágúst er aðeins leyft að veiða á flugu á svæðum 2-4, en áfram má veiða á flugu og spón á svæði 1, og 5, og gildir það fyrirkomulag til lokunar árinnar.

Veiða og sleppa:
Lax:

Sleppa skal öllum hrygnum, stórum sem smáum, eða setja þær í klakkistur.
Sleppa skal öllum hængum sem er 70 cm eða stærri eða setja þá í klakkistur.
Leyfilegur hámarksafli á hverja stöng er 1 lax á hálfum degi. Eftir það má veiða á flugu og sleppa.
Bleikja:
Sleppa skal öllum bleikjum sem eru 40 cm eða stærri.
Leyfilegur hámarksafli á hverja stöng er 2 bleikjur á hálfum degi.
Ekki eru takmörk á öðrum silungi en bleikju.

Veiðitími:
Veiðitími morgunvaktar er frá kl. 7 til 13 og veiðitími kvöldvaktar er frá kl. 16 til 22 til og með 11. ágúst, en eftir það frá kl. 15 til 21.

Veiðibók:
Skylt er að færa allan afla í veiðibók og vanda skal skráninguna. Skráning fer fram á heimasíðu Flúða á www.fnjoska.is. Ef veiðimaður hefur ekki tök á að skrá sjálfur í veiðibækur, þá getur hann komið upplýsingum til okkar símleiðis eða á netinu og við sjáum um að færa inn aflann.

Veiðihús:
Afnot af gistiaðstöðu Flúða að veiðihúsunum í Flúðaseli eru innifalin í veiðileyfum á svæðum 1 - 4.
Reglur um húsin eru á staðnum og ber mönnum að ganga vel um og sýna tillitssemi við aðra veiðimenn. Sjá nánar undir Veiðihús


Góð umgengni um ána og umhverfi hennar, svo og tillitssemi við landeigendur og aðra veiðimenn auk hófsemi við veiðarnar eru aðalsmerki góðra veiðimanna.

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.