Veiðistaðir í Fnjóská

Myndir eru fengnar frá ýmsum veiðimönnum sem hafa stundað veiðar í Fnjóská til fjölda ára og textalýsingar eru merktar höfundum.

Eiríkur Sveinsson (-ES-)
Grein sem birtist 1991, á stöku stað hefur með leyfi höfundar verið gerð lítilsháttar breyting á textanum vegna breyttra staðhátta nú.

Ingvar Karl Þorsteinsson (-IKÞ-)
Veiðistaðalýsing sem birtist í Veiðimanninum 2005. Á nokkrum stöðum hefur textinn verið uppfærður miðað við breytta staðhætti.

1 - Hríslubreiða

Hér stansar lax og bleikja frekar stutt við. Þó má stundum rekast á fiska í göngu og helst nálægt bakkanum að vestan. Einnig geta þeir verið neðarlega á breiðunni um það bil þriðjung úti í ánni. (-IKÞ-)


2 - Klapparhylur

Í góðu vatni þegar göngur eru sem mestar þá eiga laxar til með að stoppa ofan á klöppunum alveg við vesturlandið. Auðvelt er að sjá hvort þarna sé fiskur þegar komið er niður frá Skúlaskeiði og upp á klöppina ofan við veiðistaðinn. Mjög skemmtilegt er að sjónkasta flugu að þeim og oftar en ekki sýna þeir viðbrögð ef þeir eru þarna á annað borð. (-IKÞ-)


3 - Skúlaskeið

Einkennandi fyrrsumarsveiðistaður heitinn eftir Skúla Svalbarðseyrargreifa, en lax fæst þar þó lengur fram á sumar en á Bjarghorninu. Staðurinn er ekki stór en stríður, með lygnum vogi miðsvæðis. Fram af klettasnös liggur laxinn djúpt og meðfram klettarana undir vatnsyfirborðinu og alveg niður á brotið, þar sem áin steypir sér niður í Klapparhyl (2). (-ES-)


4 - Bjarghorn

Þetta er fyrst og fremst vorveiðistaður, sem gefur helst lax snemma á veiðitímanum meðan laxinn er í göngu og áin vatnsmikil. Staðið er undir klettunum, þegar hægt er að vaða meðfram berginu. Þungur straumur er á staðnum og laxinn liggur djúpt. Þarna gerast oft skemmtileg æfintýri, þegar veiddur er vorfiskur úr þessum skemmtilega laxastofni. (-ES-)


6 - Hellan

Þar rennur áin á berghellu, við og framan hamarsins, eftir að hún kemur úr þrengslunum. Laxinn (og bleikjan) liggja oft í torfum þarna á hellunni, sem auðvelt er að sjá ofan af berginu. Til að geta kastað, þarf að fara niður náttúrulegar tröppur á syllu, sem liggur við þrengslin nokkru ofan vatnsyfirborðsins. Þarna er gaman að kasta flugu, en flestir nota líklega maðkinn. Laxinn hefur mikla möguleika að sleppa þarna, enda veiðimaðurinn í eins konar spennitreyju. (-ES-)


7 - Brúarlagshylur

Brúarlagshylur er rennan sem myndast út úr þrengslunum í gljúfrinu og nær niður í Kolbeinspoll en mjög óljós mörk eru á milli þessara veiðistaða. Kolbeinspollur tekur svo við og er neðri hluti veiðistaðarins og grynnri hlutinn að austanverðu. (-IKÞ-)


8 - Kolbeinspollur

Fallegasti og besti veiðistaður árinnar að mínu mati og minn uppáhalds flugustaður, enda hvergi fengið fleiri flugulaxa. Veiðistaðurinn er þó bestur fyrri part veiðitímans, eins og aðrir á fyrsta svæðinu, en laxinn veiðist þó í honum alla sumarmánuðina og oft má fá lax þarna fram í september. Kolbeinspollur er lygn á yfirborðinu, með þungum miðstraumi og lygnari botnstraumi alveg eins og laxinn vill hafa það. (-ES-)


9 - Efra-lækjarvik

Veiðistaður, sem varla er hægt að kalla svo. Flatarmál hans er vart meira en 15 fermetrar. Hann er vel djúpur eins og trekt með víða opið inn undir flúðafossinn úr Kolbeinspolli. Hann minnir á hver, sem ætlar fara að gjósa, enda gjósa oft laxar þar á færið á vorin, en laxinn hvílir sig þarna áður en hann reynir að ganga Kolbeinspollshávaðana. (-ES-)


10 - Malareyri

Mjög gjöfull, geysidjúpur klettapottur á móti Bjarghorninu, og endist til veiða allt sumarið. Hallandi klappir liggja að veiðistaðnum, en ofantil og niður að honum miðjum er malareyri, sem staðurinn heitir eftir. Nokkur vandi er að veiða þarna, enda skrítið að kasta í svona iðupotta og flugan er lítið reynd. (-ES-)


11 - Neðra-lækjarvik

Lítill strengur á horninu neðan við Malareyrina. Í miklu vatni stoppar lax þarna á horninu í straumskilum. (-IKÞ-)


12 - Merkjabreiða

Getur verið gjöfull veiðistaður í miklu vatni þegar áin myndar þarna tvo potta af hringstreymi og geta bæði lax og bleikja verið örstutt frá landi. (-IKÞ-)


15 - Rauðhylur

Sá er neðan brúar og er þar, sem áin siglir aftur út úr gljúfrinu. Veiðistaðurinn er lygn efst en straumurinn vex síðan niður úr allstríðri breiðu, þar sem laxinn liggur oftast. Klappir eru við austurlandið, neðan við malarbakka en út af þeim fást oft laxar. Rauðhylur er snemmsumarstaður. Sumir veiða vestan ár. (-ES-)


17 - Borgargerðisbreiða

Fallegur snemmsumarstaður laxsins en síðsumarstaður bleikjunnar. Hann er stór og djúpur með góðum straumi. Vestan ár eru malareyrar en grasbakkar að austan. Veiða má af báðum bökkum. (-ES-)

(Ath. seinni árin hefur veiðistaðurinn breyst töluvert af nátturulegum ástæðum og vegna brúargerðar)

Helst er hér að reyna við sjóbleikjuna að vestanverðu, sérstaklega á haustin og vel getur verið von á einum laxi í leiðinni. (-IKÞ-)


19 - Engjabakki

Áin er breið og straumþung þarna. Best er að veiða frá vesturbakkanum. Einnig má nota austurbakkann, en það er mun verra vegna hás grasbakka, sem áin rennur meðfram þeim megin. Efst að vestanverðu er grasgeiri og lygna við landið og erfitt að ná til laxsins. Neðst eru klappir næstum út í miðja á og þar er mjög aðdjúpt og nauðsynlegt að fara varlega. Laxinn getur legið alveg við klappanefin og auk þess er fljúgandi hált þarna. Verulega þolinmæði þarf á stundum, þegar laxinn hleypur á færið þarna, sérstaklega flugulax, þar sem tipla þarf á hálum klöppunum með dýpið á milli, enda hef ég oft tekið mér bað á þessum stað. (-ES-)


21 - Húsbreiða

Efst á vesturbakkanum er klöpp út í ána, þar neðar sandfjara og enn neðar grasbakki. Þarna þarf að fara varlega að ánni. Laxinn liggur oft í smálygnu framan sandbakkans. Annars er áin mjög straumþung þarna og vatnsmikil með klettum og klöppum undir yfirborðinu, og manni finnst hún miklu stærri og vatnsmeiri þarna en annars staðar. Mér finnst erfitt, en mjög ánægjuríkt að þreyta lax á Húsbreiðunni. Ég veiði einnig austan ár, en þá þarf að vaða bússudýpt út til að ná álnum. (-ES-)


24 - Skuggapollar

Betra að veiða að vestanverðu og er veiðistaðurinn aðeins ofan við girðinguna sem nær þarna niður að ánni. Vestan til í ánni brýtur á grjótum, gott er að byrja aðeins ofan þeirra og veiða töluvert niður fyrir þau, ekki þarf að vaða mikið. (-IKÞ-)


26 - Biskupsbreiða

Var erfiður veiðistaður að nálgast en auðveldari eftir að vegaslóði kom vestan árinnar í gegn um skóginn. Veiðistaðurinn er stór en ekki mjög djúpur og betra er að veiða hann vestan ár, enda áin tvískipt þarna og ekki alltaf væð að austan. Grasbakki er þarna meðfram vesturlandinu. (-ES-)


27 - Einbúabreiða


28 - Árbugsárós

Austan árinnar er þægilegur grasbakki, en þar sem áin er þarna þokkalega breið, verður vaða útí til að ná nógu langt, en botninn er mjög háll þarna. Vestan ár er mjór grasbakki og kjarriklæddur, allbrattur malarhóll þar ofan við í pirrandi nálægð í bakkastinu þegar flugunni er beitt. Botn árinnar er líka mjög háll þarna megin. Eftir að hafa rennt sér fram úr brotinu neðst í ósnum, hættir Fnjóská að renna í norður og tekur nú norðvestlæga stefnu. (-ES-)

Segja má að hér sé um að ræða tvo eða jafnvel þrjá veiðistaði. Þar sem þveráin kemur út í Fnjóská er alltaf hægt að finna bleikju og hafa margir fengið góða veiði þar. Þá er farið að austanverðu og strengirnir og flatinn neðan við þá úr þveránni veiddir. Ofan við ármótin er laxastaðurinn og má segja að Árbugsárós (28) og Vaðnesbreiða (29) séu einn risastór veiðistaður þar sem alls staðar er von á laxi og bleikju. (-IKÞ-)


29 - Vaðnesbreiða

Sjá lýsingu á Árbugsárós.


30 - Hólmahylur

Fallegur, hæfilega stór veiðistaður með þokkalegum straumi efst og lygnri breiðu neðst og dýpi í miðri ánni. Austurbakkinn er malareyri, en vesturbakkinn brattur melhóll efst og grasbakki neðantil með grýttri fjöru. Vestantil þarf að gæta nokkuð að bakkastinu. Þarna má veiða beggja vegna og nota ég mér það og hef fengið flesta fiskana um efri hluta staðarins. (-ES-)


31 - Grjótgarðshylur


32 - Böðvarsnessklif (Neðra-klif)

Klifið er frekar stuttur og grunnur veiðistaður og þrengir sér niður í hinn af verulegum þunga og skellur á 10 m löngum grjótgarði við austurlandið úr stórum björgum, sem sett eru niður af guða eða manna höndum. Klifið suður af grjótgarðinum er grasgefið við ána, en malarfjara er vestan ár. Veiða má af báðum bökkum. Ég nota fluguna lítið þarna nema neðst á breiðunni. (-ES-)


33 - Ferjupollur

Áin rennur þarna aftur talsvert í austur. Þetta er meðalstór veiðistaður, breiður, nokkuð staumþungur og er veiddur frá báðum bökkum enda grasbakkar beggja vegna, en þó er nauðsynlegt að vaða út í ána ofantil þegar veitt er. Laxinn liggur þarna vítt og breitt ekki síst nær norðurbakkanum ofarlega. (-ES-)

Ferjupollur er einn af betri og skemmtilegri stöðum í ánni. Betra er að veiða hann að vestanverðu og byrja ofarlega en oft má sjá fisk stökkva um allt svæðið á góðum stundum síðsumars. Varast ber að vaða þar til að byrja með heldur veiða frá landi og alla leið niður á brot. Aðal tökustaðirnir eru á því svæði sem brýtur áberandi á stein í ánni og þaðan niður á brotið. (-IKÞ-)


34 - Sandur

Eftir tilkomu sleppitjarnarinnar hefur þessi veiðistaður tekið við sér. Ekið er niður að Draflastöðum og þar sem vegurinn skiptist að bæjunum tveimur er vegslóði sem liggur niður að hliði rétt ofan við veiðistaðinn. Við þetta hlið er sleppitjörnin. Ekið er lítillega niður fyrir hliðið og má þá finna vik í sandhólinn þar sem leggja má bílnum efst við veiðistaðinn. Aðal svæðið byrjar aðeins ofar en þar sem grasbakkinn tekur við af grýtta bakkanum, þar liggja grjót frá bakkanum út í ána. Vænlegt er að byrja á því að veiða frá landi áður en farið er að vaða, sérstaklega snemma á morgnana og í miklu vatni. Þegar það hefur verið reynt er ráð að vaða þriðjung út í á og veiða niður. Gott er að einbeita sér vel að steinum sem sést brjóta á en fara hraðar yfir á öðrum stöðum. (-IKÞ-)


35 - Böðvarsnesshylur

Talinn einn af bestu veiðistöðunum í efri hluta árinnar. Þarna rennur áin aftur í vestur, enda er norðurbakkinn hár grjót- og móhellukambur, illvinnanlegur af ánni. Veiðistaðurinn er mjög langur og breiður, nokkuð straumharður efst, en verður svo lygn neðst, að áin sést varla renna áður en hún brotnar niður við næstu bugðu árinnar. Ég hef séð og fengið lax alls staðar í veiðistaðnum. Suðurbakkinn er flöt malarfjara, sem auðvelt er að standa á við veiðina. Beint í austur frá þessum veiðistað á grónum malarkambi undir kjarrbrekku stendur Flúðasel, veiðihús stangveiðifélagsins Flúða. (-ES-) 

(ath. seinni árin hefur veiðistaðurinn breyst töluvert vegna náttúrulegra breytinga á farvegi)


36 - Hringsbreiða

Gefur einstaka lax. Gott er að byrja um það bil 50 metrum fyrir ofan skiltið eða rétt ofan við staur sem stendur á árbakkanum og veiða aðeins niður fyrir skiltið. (-IKÞ-)


37 - Végeirsstaðaklif (Efra-klif)

Stór veiðistaður, oft laxagefandi með rólegum straumi. Vesturbakkinn er malareyri, en austurbakkinn nokkuð brattur malarkambur, Klifið, með smástalli neðst. Veiða má frá báðum löndum, en mér finnst betra að fara frá vesturbakkanum út í miðja á og kasta flugunni beint niður en þar tekur laxinn, sínu betur neðatil. (-ES-) 

(veiðistaðurinn er nú í vestari kvíslinni sökum breytinga á farvegi)


38 - Végeirsstaðakvísl

Stór veiðistaður, oft laxagefandi með rólegum straumi. Vesturbakkinn er malareyri, en austurbakkinn nokkuð brattur malarkambur, Klifið, með smástalli neðst. Veiða má frá báðum löndum, en mér finnst betra að fara frá vesturbakkanum út í miðja á og kasta flugunni beint niður en þar tekur laxinn, sínu betur neðan til. (-ES-)

(ath. seinni árin hefur veiðistaðurinn breyst töluvert vegna náttúrulegra breytinga á farvegi)


39 - Kvíslardjúp

Af mörgum er þessi sómaveiðistaður talinn besti veiðistaður uppárinnar, enda hefur hann gefið marga laxa á öll veiðarfæri, sem eru leyfð í Fnjóská. Áin er af meðalbreidd þarna, nokkur straumur í efri hlutanum en lygnara neðst. Áll er í miðri á og þar liggur laxinn, en á breiðunni er hann víða og alveg niður á brotið. Vestan ár er malarfjara en metershár rofabakki að austan, sem áin tægir sífellt og veltir til sín við landið. Flestir kjósa að standa austan ár, en mér eru báðir bakkar tamir. Þarna hef ég fengið flesta laxa í uppánni. (-ES-)

(ath. seinni árin hefur veiðistaðurinn breyst töluvert vegna náttúrulegra breytinga á farvegi)


40 - Símastrengur

Þetta er langur, breiður veiðistaður, grunnur ofantil en djúpur neðantil, einkum við vesturlandið og neðst er stór áberandi steinn í miðjum hylnum, sem skýlir oft stórum löxum. Bakkalaust er austan ár, flatt en vestan ár, þar sem ég tel að eigi að standa, er lágur, smáhallandi malarkambur. (-ES-)

Laxinn liggur frekar nær landi vestan megin og gott er að byrja mjög ofarlega og veiða niður fyrir grjótið sem brýtur áberandi á neðarlega á staðnum. Ef veitt er að vestanverðu þarf að fara varlega og vaða ekkert út í ána. Einnig er hægt að veiða að austanverðu, þá er vaðið út í miðja á og veitt með vesturlandinu. Þá er bleikja oft á grynningunum að austan, gott að strippa silungaflugu niður breiðuna. (-IKÞ-)


41 - Melbreiða

Lítið stundaður veiðistaður en gefur einstaka fisk. Helst er að reyna beint út af skiltinu þar sem brýtur á nokkrum grjótum. Þá er farið að staðnum að vestanverðu upp frá Símastreng og vaðið út í miðja á. (-IKÞ-)


42 - Stekkjarhylur

Mjög skemmtilegur og auðveldur fluguveiðistaður, stríður og myndar þrönga röst efst, þar sem áin rennir sér milli smákletta og all stórra steina, en þenur sig út neðar, þegar fram kemur á breiðuna. Grasbakkar eru báðum megin ár og má veiða frá þeim báðum, en vaða verður allvel út og er mun betra að veiða frá vesturbakkanum. Lax er um allan miðjan veiðistaðinn. (-ES-)


43 - Straumar

Ólgur og stórir steinar á löngum kafla þar sem áin rennur þvert á dalinn og einnig í sjálfri beygjunni þegar hún er að snúa til norðurs og stefnir á Stekkjarhyl. Helst er að fá lax neðarlega í beygjunni. (-IKÞ-)


44 - Vatnsleysuhylur

Þarna rennur áin í austur meðfram bröttum, grónum norðurbakka en flötum malarbakka að sunnan. Hylurinn er mjög djúpur ofantil en endar í grunnri breiðu. Þarna er best að veiða sunnan til. (-ES-)

(Ath. veiðistaðurinn er nú nánast horfinn vegna nýlegra breytinga, sem gerðar voru til að hindra landbrot)

Veiðistaðurinn hefur verið að lifna við síðustu árin og líklega með tilkomu sleppitjarnar. Helst er að lax veiðist út af neðsta grjótgarðinum og þaðan langleiðina niður á brot. (-IKÞ-)


45 - Bakkahylur

Langur, breiður og djúpur veiðistaður með jöfnum straumi, en laxinn liggur oftar í neðri hluta hans. Austan ár er bakkinn malarfjara, en vestan ár er hár malarkambur, gróinn nokkuð með grasgöngubraut meðfram ánni. Stórir steinar, sem liggja misdjúpt eru neðarlega og djúpir álar á milli. Dálítið erfitt er að kasta flugu af vesturbakkanum, þar sem flestir veiða svo sem undirritaður. Þetta er fallegur og gjöfull veiðistaður. (-ES-)

(Ath. veiðistaðurinn er nú mun minni en áður, vegna nýlegra breytinga sem gerðar voru til að hindra landbrot)


46 - Eyrarbreiða

Vatnsmikill og langur veiðistaður, sem veiða má af báðum bökkum og er auðveldur hvoru megin sem er. Laxinn getur verið nær alls staðar, en líklega oftar en ekki á jafnrennandi breiðunni. Þessi staður er frekar seinlegur yfirferðar en gefur oft góða veiði. (-ES-)

Eyrarbreiða er oftast veidd að austanverðu og er þá ekið niður veg sunnan bæinn Veisusel og þaðan í túnjaðrinum þar til hægt er beygja og keyra niður brekku að veiðistaðnum. Efst í veiðistaðnum er ævinlega bleikja og er hún helst í straumskilunum og aðeins inn á dauða vatnið. Fyrir miðri breiðu er steinn sem stendur upp úr og er gott að byrja aðeins ofan við hann þegar reynt er við laxinn. Í kringum þennan stein og utan við hann eru fleiri steinar og liggur laxinn við þá en einnig í miðjum strengnum frá þessum steinum og alveg niður á brot. (-IKÞ-)


47 - Litlabreiða

Hún er lunkinn veiðistaður og gefur mér æfinlega hjartslátt þegar ég nálgast hann, spölur er þangað af veginum. Lætur hún fremur lítið yfir sér, er auðveldur veiðistaður, krefst ekki langra kasta og því upplagður flugustaður. Hann er þó gjarnan eins og tímasprengja og þar gerast oft eftirminnileg æfintýri. Margir sleppa veiðistaðnum í yfirferðinni. Áin kemur þarna strítt og þjarmar að austurbakkanum, allháum mel, sem hún nagar stöðugt úr og því er engin fjara þeim megin. Dýpi staðarins og laxalega er því nær austurlandinu niður á breiðuna. Vesturbakkinn er malarfjara og lágur grasbakki upp af henni. Veiðistaðurinn er frekar lítill, straumþungur efst í strengnum og rennur áin þar milli steina en endar í lygnri breiðu þar sem áin breikkar ört. Ég veiði þarna frá vesturbakkanum og veð vel útí miðja á. Mér finnst veiðistaðurinn gullfallegur. (-ES-)

Hægt er að veiða staðinn frá báðum bökkum en þó kjósa flestir að veiða hann að austanverðu, þar er laxinn nær landi. Ef staðurinn er veiddur að vestanverðu þarf að vaða töluvert út í ána. Gott er að byrja fremur ofarlega og kasta ofan við ólgur sem myndast af stórum steinum úti í ánni. Rétt ofan við og neðan við þessa steina eru legustaðir laxanna þegar líða tekur á sumar en þegar fiskur er að ganga af krafti má fá fiska alla leið niður á brot. (-IKÞ-)


48 - Tólfaurabreiða


49 - Þvergarðsbreiða

Straumþungur, allbreiður, meðalstór, fallegur og erfiður veiðistaður, og minnir um margt á Vaðhyl í Selá. Áll árinnar er nær austurlandinu og efst er djúp klettarenna undir yfirborðinu. Nokkrir allstórir steinar eru við austurlandið og sá stærsti neðst, áður en áin kemur í breiðuna. Hún er venjulega grunn og vel væð, enda gamalt vað, Þvergarðsvað, suður og niður undan túninu á Víðivöllum, sunnan hólma í miðri á og ferjustaður var þar litlu sunnar. Þar lágu fjölfarnar reiðgötur að Hálsi og einnig lengra austur til Ljósavatnsskarðs. Stakur steinn er úti í miðri á, sem ekki nær yfirborðinu í miklu vatni. Áin er mjög grunn við vesturlandið, eftir að niður kemur af allbröttum mel með grasbakka, en í minna vatni kemur malarrif þar upp úr síðsumars, sem gerir löndun auðveldari. Efst við þessa eyju eru allmargir steinar, sem venjulega standa vel upp úr, en frekar grunnur áll er næst landinu. Grasbakki er við austurlandið. Margir kjósa að vaða ána á breiðunni og veiða frá austurbakkanum, en undirritaður veður út í miðja á frá vesturlandinu og kastar þaðan úr straumröstinni. Þarna hef ég átt margar snarpar glímur við sterka laxa og þessi staður er uppáhalds veiðistaðurinn minn í uppánni. (-ES-)


50 - Hrísgerðisbreiða

Hún er lygn, langur, breiður og þannig stór veiðistaður. Aðaldýpið er að vestanverðu, en þar rennur áin við tíu metra háan, nær fjörulausan bakka vaxinn kjarri og grasi. Grjóhnullungar eru hér og hvar í ánni, mest ofantil. Austurbakkinn er malarfjara. Mjög erfitt er að kasta flugu þarna, nema með sveiflukasti. Þröngt er á bakkanum og því nokkur vandi að þreyta og ná laxinum. Ég veiði alltaf vestan ár. (-ES-)


51 - Hálspollur

Fyrst og fremst bleikjustaður og veiddur að austanverðu. Þó fæst þarna einstaka lax ef heppnin er með og göngufiskur hefur staldrað þar aðeins við. Veiðistaðurinn er smá flati sem myndast rétt ofan við þar sem Þingmannalækurinn rennur út í Fnjóská og sjálfur lækjarósinn. Gott er að strippa hér silungaflugur og byrja nálægt landi. (-IKÞ-)


52 - Flúðir

Nafn veiðistaðarins gefur nokkuð til kynna útlit hans. Áin kemur í veiðistaðinn að austan og steytir þar á klettum, sem neyða hana til að beygja í norður aftur og nær hún þar straumþungum flúðum efst. Þá rennur hún milli klappa með álum á milli, uns hún finnur fyrir malarbotni og hægir því á sér og endar í lygnri breiðu. Klappirnar ná upp undir allháan grasbakka að vestan, en flatur grasbakki er að austan, þar sem áin er mun grynnri. Um allan veiðistaðinn er dreift misstórum steinum. Þetta er afskaplega fallegur veiðistaður, en ekki sérlega gjöfull og veiðist laxinn alls staðar. Þarna er kjörið að kasta flugunni, en varla nær maður nema út í miðja á. Veiða má af báðum bökkum en mér finnst betra að vera austan við. (-ES-)


53 - Nesbugða (Neslækur)

Einnig kallaður Neshylur og dregur nafn sitt af bænum Nesi sem stendur beint ofan við veiðistaðinn. Betra að veiða að austanverðu og gott að byrja við stóru grjótin ofarlega í veiðistaðnum og veiða niður. Staðurinn skýrir sig að mestu sjálfur þegar að honum er komið, straumharður strengur með vesturlandinu en rólegra vatn að austanverðu og botninn stórgrýttur. Þar geta laxar legið milli steinanna en einnig mjög nálægt landi alveg frá stórgrýtinu og niður breiðuna. (-IKÞ-)


54 - Ferjustrengur

Einnig kallaður Nesbreiða á meðal veiðimanna. Veiddur að vestanverðu og er þá byrjað aðeins ofan við raflínuna er liggur yfir ána og vaðið út í ána. Aðeins neðan við þessa raflínu eru ólgur frá stórum steinum. Breiðan er frekar grunn en í kringum ólgurnar er lúmskt dýpi og þar liggur laxinn. Einnig getur hann verið nálægt landi að austanverðu aðeins neðar. (-IKÞ-)


55 - Skógargilsbreiða


56 - Búðarbreiða


57 - Bogaflúð (Brúarflúð)


59 - Systrahvammur

Í daglegu tali er þessi veiðistaður nefndur Fellibrú en hann er við nýju brúna yfir í Vaglaskóg. Byggð var brú á þessum stað en hún gaf sig undan klakastíflu og féll í ána. Við breytingar og uppsetningu á nýrri brú í kjölfarið myndaðist svo veiðistaðurinn. Gott er að byrja að vestanverðu ofan við lækinn ofan við brúna og veiða niður. Neðan við brúna er mikil breiða, býsna djúp efst. Einna besti tökustaðurinn er fyrir miðri breiðu og þar niður af en einnig fást göngufiskar ofan við brú. (-IKÞ-)


61 - Merkurbreiða

Merkurbreiða, dregur nafn sitt af bænum Mörk. Þetta er frekar stór breiða sem byrjar með streng niður miðja á, Þar eru margir fallegir speglar sem lax getur leynst í, en þegar neðar dregur verður hún lign. Þarna er mikill gróður og nokkrir steinar við vestulandið, við þessa steina liggur laxinn gjarnan, sé veitt að vestanverðu þarf að fara mjög varlega þegar neðar dregur, aftur á móti er mjög gott að nota fluguna ef veitt er að austanverðu en þá þarf að vaða nokkuð út. (-SG-)


62 - Skjólbreiða


64 - Urðarpollur


65 - Mógilsbreiða

Mógilsbreiða er mjög stór breiða, efst er strengur sem liggur með austurlandinu þar neðan við er einn fallegasti veiðistaður árinnar að mínu mati. Þarna getur fiskur legið um alla breiðu,en um miðja breiðu eru steinar austan við miðja á sem standa upp úr í venjulegu sumarvatni, við þessa steina liggur alltaf lax og stekkur hann oft og gleður það óneitanlega augu veiðimanna. Þarna liggur laxinn oftast með austurlandinu talsvert fyrir ofan við þessa steina og alveg niður á brot. Þarna þarf því að passa að vaða ekki of langt út í fyrstu umferð. Þetta er góður flugustaður. (-SG-)

 


66 - Lygna


67 - Lækjarbreiða


68 - Hólmabreiða


74 - Steinapollar


75 - Grjótárbreiða


78 - Selbreiða


80 - Selland


Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.