Fréttasafn

22 sep. 2007

Settar hafa verið inn 2 stangir til og með 30. sept á 1. svæði og þá einungis neðan Laufásfossa.

Um er að ræða veiði í haustbleikju en einnig er lax á svæðinu og er skylt að sleppa 2 ára laxi. Veitt verður frá 7-13 og 14-20 og verð á stöng fyrir hálfan dag er 4.000 kr.

Hægt er að sjá lausa daga hér.


07 sep. 2007
Rúmlega 300 laxar eru nú komnir í veiðibækur.

Við vorum að setja í sölu staka 1/2 daga á laxasvæðum dagana 10-14. september.
Munið að sleppa skal öllum löxum sem eru 5 kg eða stærri, eða setja þá í klakkisturnar.

Stjórn Flúða.

04 ágú. 2007

Smálaxagöngur hafa sést síðustu daga og hefur veiðin tekið kipp í kjölfarið. Um 130 laxar eru komnir á land og eitthvað veiðist á öllum laxasvæðum. Einnig hafa laxar veiðst á silungasvæðunum
Búið er að setja niður kistur fyrir laxa sem fara í klak. Þar sem tveggja ára laxinn brást að miklu leyti gæti orðið erfitt að ná tilskyldum fjölda stórra klaklaxa. Við biðjum því veiðimenn að aðstoða okkur af fremsta megni og setja góða klakfiska í kisturnar. Stórar hrygnur eru mikilvægastar, en einnig má setja minni hrygnur í kistur. Hængir mega vera stórir eða smáir. Betra er að fá fleiri laxa í ksiturnar en færri, alltaf má grisja eftir á, ef of mikið er komið af laxi. Vinsamlegast látið veiðivörð vita ef þið setjið lax í kistu, sími 898 6073 og 462 6073.


17 júl. 2007
Það voru að detta inn hjá okkur leyfi 18 - 20 júlí á öllum svæðum. Þeim hefur verið skipt upp í stakar vaktir og settar inn í vefsölukerfið.

14 júl. 2007
Veiðimenn, sem voru á 4. svæði í morgun, settu í 3 laxa: misstu einn stóran í Nesbugðu, náðu einum í Systrahvammi og einum á Mógilsbreiðu. Allt nýgengnir og fallegir laxar. Víða á svæðinu sáust laxar.

12 júl. 2007

Veiðimenn hafa orðið varir við lax á nokkrum stöðum á efri svæðunum undanfarna daga.
Fyrstu laxarnir komu á land á 2. og 3. svæði í dag.
Þá hafa nokkrar góðar sjóbleikjur komið af efri svæðunum.
Nokkrir laxar hafa komið af 1. svæði síðustu daga, lúsugir 10-12 punda fiskar.
Nokkuð af laxi hefur sést ganga upp úr Kolbeinspolli og hellingur af góðri bleikju sést á 1. svæði.


08 júl. 2007
Töluvert af góðri sjóbleikju er komið í ána. Á 1. svæði sést hún og veiðist á flestum stöðum, og nokkrar eru komnar á land á efri svæðunum, t.d. gaf 6. svæði góða bleikjuveiði um daginn. Lítið sést hins vegar af laxi og svo virðist sem stórlaxinn ætli að vera með allra minnsta móti í ár, ekki aðeins hjá okkur, heldur á landsvísu. Enn er þú góð von um að úr rætist, góður straumur er innan skamms og vonandi "bunkast" stórlaxinn inn með honum.

29 jún. 2007

Veiðimaður á seinnipartsvaktinni í gær, fimmtudag, landaði laxi nr. 2 úr Fnjóská þetta sumarið. Laxinn tók rauða Frances á Hellunni og náðist eftir snarpa viðureign, en þá voru bæði lax og veiðmaður að niðurlotum komnir og áhorfendur, sem stóðu á klöppinni, gjörsamlega farnir á taugum. Fleir laxar sáust þetta kvöld; 2 voru á Hellunni, lax sást á Bjarghorni, 2-3 laxar sáust á Skúlaskeiði og vart var við lax á Malareyri.


26 jún. 2007
Lítið sést enn af laxi en nokkrar góðar sjóbleikjur hafa fengist.
Tveir laxar sáust þó á Hellunni seinnipartinn í gær (mánudag 25. júní). Annar þeirra tók, en slapp eftir stutta viðureign.
Áin er mjög góð, enginn litur er á henni og vatnsmagnið að komast í gott horf, ekkert ætti því hindra göngu upp á efri svæðin.

19 jún. 2007

Fyrsta laxinum var landað úr Fnjóská í morgun. Var þetta tæplega 10 punda grálúsug hrygna sem fékkst í Neðra Lækjarviki sem er neðan við Kolbeinspoll og Malareyri. Jafnframt fengu veiðimennirnir 3 punda sjóbirting og 3 nýgengnar sjóbleikjur, tvær þeirra voru um 4 pund og fengust í Rauðhyl og sú þriðja fékkst á Bjarghorni. Einnig elti lax spón í Rauðhyl en gaf sig ekki.

Veiðimenn reyndu fyrir sér á föstudag en þá var áin vatnsmikil og erfið viðureignar. Vatnið hefur sjatnað mikið síðustu daga og höfðu þeir sem voru við veiðar í morgun orð um að hægt hefði verið að sjá vatnið lækka í henni á morgunvaktinni og hún væri að nálgast kjöraðstæður.

Mynd: Guðmundur Gunnarsson með fyrsta lax sumarins í Fnjóská

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.