Fréttasafn

20 sep. 2009

Lax.
417 laxar voru skráðir í veiðibækurnar og meðalþyngd var 3,2 kg.
Veiði eftir kyni: 292 hængir og 125 hrygnur.
Veiði eftir agni: 272 á flugu, 76 á maðk og 69 á spón.
Veiði eftir svæðum: 177 á 1. svæði, 92 á 2. svæði, 98 á 3. svæði, 47 á 4. svæði og 3 á 5. svæði.
Veiði eftir mánuðum: 10 í Júní, 174 í júlí, 197 í ágúst og 36 í september.

Silungur.
ca. 600 bleikjur og urriðar eru skráðir í veiðibækur.
Því miður er nokkuð um að veiðimenn trassi að skrá silunga í veiðibækurnar, þannig að silungsveiðin er að öllum líkindum nokkuð meiri en þar kemur fram.


01 sep. 2009

Hollið sem lauk veiðum á hádegi 31. ágúst var með 37 laxa og var stór hluti aflans lúsugir vel haldnir smálaxar.
Veiðin er nú komin í ca. 370 laxa og ættum við að komast vel yfir 400 laxa.
Enn vantar okkur klaklaxa, sérstaklega stórar hrygnur.


19 ágú. 2009

300 laxar eru nú komnir á land, en 19. ágúst í fyrra voru komnir 380 laxar.
Hollið sem var við veiðar 13-15. ágúst var með 29 laxa, þar af nokkra tveggja ára laxa sem fóru flestir í klak-kistur eða var sleppt aftur í ána. Ekki hefur orðið vart við kröftugar smálaxagöngur, en hann er þó að ganga jafnt og þétt og eru veiðimenn á 1. svæði að sjá laxa á leið upp að stiganum, sem þeir fara síðan auðveldlega um á leið sinni upp á efri svæðin. Nýgegngnir tveggja ára laxar hafa hafa einnig sést og veiðst síðustu daga.


30 júl. 2009

Nú styttist óðum í tvöhundruðasta laxinn á land.

Hollið sem lauk 2ja daga veiði 28. júlí var með 35 laxa og veiddust þeir á öllum svæðum, þó mest á 1. svæði þar sem sjá mátti töluvert af laxi. Einnig urðu menn víða varir við lax á öðrum svæðum en tökur hafa verið dræmar undanfarna daga vegna óvenju lágs hitastigs á ánni eftir að snjóaði á hálendinu. Vel gæti lifnað yfir veiðinni þegar vatnið hlýnar á ný.

Klakkisturnar eru komnar í ána og sem fyrr biðlum við til veiðimanna að setja góða klaklaxa í kisturnar, sérstaklega 2ja ára laxa. Einnig er mikilvægt að menn láti vita af þeim löxum sem fara í kistur.
Kisturnar eru á þessum stöðum: Neðst á Lygnu (66) að vestan. Neðst á Systrahvammi (59) að vestan. Neðst á Flúðum (52) að austan. Á milli Litlubreiðu (47) og Eyrarbreiðu (46) að vestan. Á Vatnsleysuhyl (44) að austan. Neðst á Sandi (34) að vestan. Ofarlega á Árbugsárósi (28) að austan.


24 júl. 2009
Þessi póstur barst áðan með fyrirsögninni: Bleikjan er mætt á 5. svæðið!

SÆLIR FÉLAGAR!
Vvið vorum í gær við veiðar í skíta veðri og allar aðstæður erfiðar en urðum víða varir við fisk á svæðinu. Náðum sex bleikjum, 1,5 - 4 pund, og settum í sjö til viðbótar sem fóru af. Mest af þessu var á kúluhausa af ýmsum gerðum. Sáum engan lax en vitum að hann er á leiðinni upp. Ég vil svo benda félagsmönnum og öðrum á að vera duglegir að senda póst á síðuna til þess að hún virki almennilega.
Baráttukveðja, Ólafur Kristjánsson.

21 júl. 2009

Vatnsmagn í Fnjóská er nú orðið eðlilegt miðað við árstíma, en miklir vextir hömluðu veiðum frá opnun árinnar og fram í byrjun júlí. Hámarki náði vatnsmagnið 3. júlí og var það þá 4 sinnum meira en það er í dag.

Tæplega 100 laxar hafa nú komið á land úr ánni og á þriðja hundrað silungar, mest 2-3 punda sjóbleikjur.
Fyrstu laxarnir ofan 1. svæðis veiddust 8. júlí.

Veiðimenn sem enn eiga eftir að skrá afla, eru vinsamlegst beðnir að gera það hið fyrsta!

Á meðfylgjandi myndum eru Egill með góðan lax af Þvergarðsbreiðu 10. júlí, og Friðrik með 5 punda bleikju af silungasvæðinu 18. júlí.


27 jún. 2009

Áin hefur minnkað nokkuð en hún er búin að vera mikil undanfarna daga og stundum nánast óveiðandi sökum vatnsmagns.
Þrír laxar komu á land föstudaginn 26. júní og nokkrir laxar sáust; á Hellunni og víðar.
Nokkrar sjóbleikjur og urriðar hafa veiðst síðustu daga.


17 jún. 2009

Stjórnarmenn Flúða fóru til veiða í Fnjóská í morgun og fengu þrjá laxa.

Laxarnar fengust allir í Kolbeinspolli og allir á flugu. Voru þetta allt tveggja ára laxar á bilinu 8-14 pund og voru tveir þeirra lúsugir.

Áin er frekar vatnsmikil og örlítið skoluð en ekki svo mikið að það komi að sök.

Við verðum með fleiri fréttir næstu daga af veiði.

Mynd: Sigurður J. Ringsted með 14 punda lax sem tók fluguna Snældu í Kolbeinspolli kl. 11 að morgni 17. júní. Með honum á myndinni er Sigurður Gísli Ringsted, 5 ára, sem passar stöng pabba síns.

Fleiri myndir frá veiðinni...
Guðjón Ágúst með fyrsta laxinn 2009 og Guðmundur Gunnarsson með annan laxinn. Með þeim á mynd er yfir-ræktunarmálastjóri Flúða, Pétur Brynjólfsson.


16 jún. 2009
Laxar hafa sést á 1. svæði síðustu daga.
Stjórnarmenn ásamt nokkrum öðrum Flúðafélögum hafa að undanförnu unnið að dreifingu seiða úr eldistjörninni við Draflastaði í sleppitjarnirnar, ásamt því að gera klárt fyrir veiðarnar sem hefjast 18. júní.
Áin er vatnsmikil að venju á þessum tíma en nánast ólituð.

15 maí 2009

Tvíhendunámskeið verður haldið laugardaginn 13. júní í Fnjóská.

Kennd verða svokölluð Speyköst með ýmsum aðferðum og hvernig og hvaða kast hentar best eftir aðstæðum á bakkanum hverju sinni.

Námskeiðin verða tvö, fyrra námskeiðið hefst kl 9:00 og stendur til kl 14:00. Seinna námskeiðið hefst kl 15:00 og stendur til kl 20:00.

Verð á mann fyrir námskeiðið er 12.000 kr. og greiðist við skráningu. Takmarkaður fjöldi kemst að þar sem hverjum og einum verður vel sinnt.

Kennari á námskeiðinu verður Jóhann Þorbjörnsson sem margir kannast eflaust betur við sem Jóa í Veiðihorninu.

Hægt er að skrá sig hjá Jóa í síma 892 9201 eða með því að senda tölvupóst á speycast5@gmail.com


20 apr. 2009

Laus veiðileyfi á bæði laxa- og silungasvæðum hafa nú verið sett á vefinn hjá okkur. Hægt er að smella á hlekkina "Laxveiðileyfi" og "Silungsveiðileyfi" hérna á vinstri kantinum til að sjá yfirlit yfir lausa daga.

Breytingar hafa verið gerðar á greiðslufyrirkomulagi á þann hátt að nú fara allar greiðslur fram með greiðslukortum. Þetta fyrirkomulag er gert með þjónustu Dalpay á Dalvík sem býður upp á 100% öryggi í greiðslum í gegnum internetið. Margir aðilar hafa nýtt sér þessa þjónustu hingað til og láta allir vel að.

Ef veiðimenn hafa engan kost á því að greiða með korti en vilja kaupa daga, vinsamlegast hafið samband á sigring@nett.is eða í síma 892 8801.

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.