Fréttasafn

02 nóv. 2010

Nú þegar veiðitímabilinu er lokið og veiðibækur hafa verið gerðar upp eru komnar lokatölur.

Fnjóská fór fram úr okkar björtustu vonum í veiði á laxi. Í veiðibók eru skráðir 1054 laxar, þar af 8 laxar á silungasvæðinu. Fyrra met var 555 laxar árið 1992.

Silungsveiði í Fnjóská var ekki jafn góð og vonast var eftir, 384 bleikjur eru skráðar í bók og 113 urriðar. Vonandi fer sjóbleikjan að ná sér upp aftur, sjóbleikjuár við Eyjafjörð eru sumar að bæta sig á þessu ári en aðrar eru ennþá í niðursveiflu.

Af Fjarðará er frá litlu að segja sem mark er á takandi, aðeins er skráð veiði á 4 daga í bókinni og á þeim 27 bleikjur, þar af meira en helmingurinn á einum degi. Því er nokkuð víst að bregðast verður við þessu á einhvern hátt fyrir næsta sumar svo veiðimenn skili inn veiðitölum.

Veiðibókin í endanlegu formi fyrir laxveiðina 2010 í Fnjóská verður sýnileg fljótlega á vefnum, verið er að klára síðustu blaðsíðurnar inn á tölvutæka formið.

Mynd: Ólafur Kristjáns glaðbeittur á svipinn með einn vænan í júní 2010.


15 sep. 2010
Það liggur fyrir að mikið er af laxi í ánni og eftir að hafa ráðfært okkur við sérfræðinga okkar í ræktunarmálum höfum við ákveðið að framlengja veiðitímabilið í Fnjóská um nokkra daga. Við höfum því sett í sölu veiðileyfi á öllum svæðum dagana 16 – 19. september. Við leggjum áherslu á að skv. veiðireglum okkar skal sleppa öllum löxum sem eru 4 kg eða stærri, eða setja þá í klak-kistur. Einnig biðjum við veiðimenn sem kaupa þessa aukadaga að sleppa legnum smálaxi, sérstaklega hrygnum.

31 ágú. 2010

Nokkur leyfi losnuðu vegna forfalla og eru komin í sölu hérna á vefnum. Um er að ræða stangir 8-10 september og voru þær settar í söluna sem stakar vaktir en ef áhugi er fyrir að kaupa tveggja daga pakka, sem er ódýrara en að kaupa fjórar stakar vaktir, þá er bara að setja sig í samband við okkur og við leysum ef hægt er.

Veiðin í ánni er nú komin vel yfir 800 laxa, haustið er komið og því erfitt að spá í lokatölur, allt getur gerst á haustdögum, bæði kuldaköst og treg taka en líka er hægt að hitta á algjört bingó og svo er allt þar á milli.

Við skoðuðum veiðibókina vel og þar vantar ennþá fiska frá því fyrr í sumar, skráð veiði hefur verið niður í nánast enga yfir daginn á allar stangir í ánni á topp tíma, sem segir okkur ekkert annað en að ennþá vantar upp á skráningu. Vinsamlegast sendið okkur óskráða veiði í tölvupósti, hringið eða rennið í Ellingsen og skráið áður en veiðitíma lýkur.

Ólafur Kristjáns Flúðafélagi sendi okkur eftirfarandi mynd af 5 punda urriða sem hann veiddi á Hrísgerðisbreiðu fyrr í sumar og sá var með 3 stk laxaseiði í maganum og upp í 17cm. Eitt þeirra stóð upp úr kokinu á honum en engu að síður rauk hann á svartan toby. Óli kallar þessa fiska ekki urriða heldur "seiðamorðingja" og má segja að það viðurnefni sé viðeigandi í þessu tilfelli.


26 ágú. 2010

Nú hafa verið færðir til bókar 785 laxar úr Fnjóská og ennþá ágætis veiði. Undanfarið hefur veiðin verið best á svæði 2. en lax er á öllum svæðum og alls staðar að veiðast.

Það eru lausar stangir í fyrramálið og svo aftur í næstu viku eða þriðjudag til fimmtudags. Hægt verður að kaupa stakar vaktir úr þeim dögum um helgina. Eftir það eru lausar 4. stangir 12-14 sept og eru það síðustu leyfin á laxasvæðunum þetta árið.

Ennþá hefur ekki verið landað yfir 20 punda fiski okkur vitanlega en mörgum 18 - 19,5 pund. Nokkrir laxar yfir 20 pund hafa sloppið með því að slíta tauma, brjóta öngla eða hreinlega rífa úr sér með látum. Án vafa verður einhverjum landað yfir 100 cm á næstu dögum þar sem stóru hængirnir eru núna að eigna sér svæði í hyljunum.

Staðan á klakfiski er ágæt en okkur vantar ennþá stórar hrygnur og biðjum veiðimenn að hugsa til framtíðar ef þeir ná fallegum 2ja ára hrygnum og setja þær í kistu. Mjög stóra hængi er líka gott að fá í kistur en ekki er nauðsynlegt að hafa mikið fyrir því þar sem staðan á þeim er nokkuð góð.

Að endingu viljum við benda mönnum á að öllum tveggja ára fiski skal sleppt í september. Það er nóg af smáhængum sem hægt er að fá sér í matinn ef menn vilja og þeir eru tökuglaðir þessa dagana.
Þó það sé ekki skylda að sleppa smálaxi aftur þá beinum við því að mönnum að leyfa líka smálaxahrygnum að fara aftur í ána til að gera sitt gagn ef mögulegt er.

Mynd: Vænn hængur á leiðinni í kistu í síðustu viku, veiðimaðurinn er Hermann Brynjarsson.


15 ágú. 2010

Nú hafa verið færðir 637 laxar til bókar og veiðibókin á netinu uppfærð. Undanfarna daga hefur veiði verið góð og ennþá að veiðast lúsugir laxar. Enn sem fyrr viljum við minna menn á að skrá veiðina fljótt og vel, en of mikið er um að trassað sé að skrá og við vitum af nokkrum veiðimönnum sem hafa veitt vel en ekkert skráð!

Við fengum skemmtilega veiðisögu senda og látum hana flakka.

Eftir að vera búinn að aka meðfram Fnjóská ótal sinnum lét ég drauminn rætast. Á heimasíðu Stangaveiðifélags Flúða fann ég lausa seinni vakt á svæði 3, og með smá fingrafimi á takkaborðinu var leyfið staðfest. Með mér á stöngina var Aðalsteinn bróðir (af mörgum kallaður Addi Lögga,og ekki af ástæðulausu!) en vegna anna gat hann ekki byrjað kl. 4, en sagðist koma seinna.
Ég var mættur efst á svæði 3, við veiðistað nr. 52 (Flúðir) um kl. 15.30 og setti saman einhenduna í bakandi sólskini, logni og 22 stiga hita. Á mínútunni 4 flaug rauð Frances út í á, og sæluhrollur fór um mig allan. U.þ.b. korteri seinna var ég kominn út í miðja á og neðarlega á veiðistaðinn, ég kastaði þvert á strauminn að vesturbakkanum og lét fluguna reka þar til línan hafði rétt úr sér. Í einu kastinu hætti línan að reka,, ég strippa,,, hver fjárinn fast í botni! Ég vind inn á hjólið, herði átakið til að losa úr festunni, en finn þá titring og smákippi (sem fóru eftir línunni, í stöngina og þaðan alla leið niður í tær á mér..) LAAAAAAAX !! Stöngin í keng en laxinn hreifði sig hvergi. Eftir allanga stund fer laxinn að pirrast á reipitoginu og fer að svamla um á litlu svæði en endar hringsólið á ofsaferð meðstraums svo að söng og hvein í hjólinu, flugulínan og slatti af undirlínu hurfu á svipstundu. Ég herði á bremsunni og byrja að ösla í land, leit upp, enginn Addi sjáanlegur, í sömu andrá hvarf mér sýn, heyrn og vit og vöðlur fylltust ísköldu Fnjóskárvatni! Eftir að hafa snúið mér í vænlega stöðu undir yfirborðinu kenndi ég botns og gat staðið upp, blásandi eins og stórhveli á Skjálfandaflóa.
Ekki sleppti ég stönginni og eftir að vera búinn að ná áttum (og andanum) fann ég að allt var laust. Ég spólaði inn, skjálfandi af geðshræringu, en viti menn, laxinn hafði snúið við og lá nú í makindum á tökustað og ennþá fast í honum! Heyri ég þá hlátur mikinn af árbakkanum, jú Addi loksins mættur. Eftir nokkrar smárokur fram og til baka var laxinn farinn að sýna þreytumerki og ég tala nú ekki um veiðimanninn, bað ég Adda að ná í stóra háfinn þvi hér væri stórlax á ferð,, ''háfinn, nei nei ég hef nú handtekið stærri ólátabelgi en þennan'' sagði hann og glotti. Ég var kominn upp á bakkann og gat í 3 tilraun strandað laxinum og Addi sporð/handtók hann eins og ekkert væri. Slagurinn hafði þá tekið rúman klukkutíma. Sem betur fer var klakkista innan seilingar og eftir lengdarmælingu (88 cm) fór laxinn beint í hana. Fórum við bræður síðan niður með ánni, sáum og urðum varir við fisk á öllum veiðistöðum en hann var tregur til að taka. Enduðum við kvöldið á nr. 44 (Vatnsleysuhylur) þar sem laxinn var að stökkva út um allt, en lystarlaus á agn okkar.

Kveðja
Jon Christian


10 ágú. 2010

Mjög gott vatn er í Fnjóská og áframhaldandi góð veiði. Margar stangir eru að fá 10-15 laxa á tveimur dögum og er veiðin ágætlega dreifð á milli svæða. Rétt tæplega 600 laxar eru komnir á land og metið (555 laxar) frá árinu 1992 er því fallið!
Enn sem fyrr viljum við minna menn á að skrá veiðina fljótt og vel, en of mikið er um að trassað sé að skrá og við vitum af nokkrum veiðimönnum sem hafa veitt vel en ekkert skráð!


03 ágú. 2010

Núna eru komnir ríflega 460 laxar í veiðibókina og nokkrir til viðbótar sem við vitum um og á eftir að skrá. Vinsamlegast sendið okkur tölvupóst eða hringið inn ef þið hafið ekki haft tök á því að skrá afla að lokinni veiði.

Veiðibókin á vefnum var uppfærð snemma í dag og þar eru 394 laxar skráðir. Í dag hefur verið stöðugur straumur veiðimanna að skrá og hækkaði því talan um tugi laxa á skriflega forminu. Síðasta holl var til að mynda með rúmlega 50 laxa og hollið þar á undan með 40-50 laxa. Við stefnum á að uppfæra veiðibókina aftur á vefnum annað kvöld.

Metveiði á laxi í Fnjóská er 555 laxar 1992, einnig veiddust 554 laxar 1978. Það er því orðið öruggt að metið mun falla í ár og það líklega með stæl. Veiðin gæti hæglega farið yfir 700 laxa þar sem allir veiðistaðir halda laxi og hann ennþá að ganga.

Við erum með nokkra óskilamuni sem má vitja í Ellingsen, hafa samband við Guðmund. Um er að ræða Scierra vöðlur sem gleymdust á Skarði, veiðigleraugu sem fundust við Helluna og hringlaga stykki framan af myndavélarlinsu.

Mynd: Fjör við Ferjupoll í Fnjóská á dögunum...


02 ágú. 2010

Nú er búið að merkja 19 veiðistaði í Fjarðará frá ósum og upp í gil. Veiðimenn sem voru í fyrradag fengu 14 bleikjur og voru þær á bilinu 1-3 pund, þeir settu einnig fjölda til viðbótar. Við heyrðum frá öðrum sem voru í síðustu viku og voru þeir búnir að fá nokkrar bleikjur og þar af legnar bleikjur upp í á, alveg að 3 pundum. Af ósasvæðinu fáum við sömu söguna frá öllum sem fara, alls staðar fiskur að vaka þegar hafgolan dettur niður.

Við höfum fengið fregnir af því að fólk hafi verið að veiða í Fjarðará í leyfisleysi. Til að mynda var fólk að veiða er tjaldað hafði örfáa metra frá skiltinu þar sem ítrekað er að veiði sé bönnuð án leyfis. Þegar þessir "veiðimenn" urðu varir við okkar menn forðuðu þeir sér hið snarasta og voru frekar klaufalegir við þær aðfarir.

Verði veiðimenn varir við það að fólk sé að veiða þarna í leyfisleysi biðjum við þá um að taka niður bílnúmer eða aðrar upplýsingar sem gagnast til þess að hafa upp á viðkomandi.

Í framhaldi af þessu og af gefnu tilefni minnum við veiðimenn í Fnjóská til þess að lesa veiðireglur og hlíta þeim í hvívetna. Veiðivörður hefur þurft að hafa afskipti af veiðimönnum í sumar vegna brota á reglum og við höfum fengið upplýsingar frá fólki sem hefur látið vita af reglubrjótum. Þetta eru ekki flóknar reglur og enginn skyldi halda til veiða án þess að vita hvar og hvenær hann hefur leyfi og hversu margar stangir hann má veiða á í einu.

Mynd: Horft inn dalinn frá ósasvæði Fjarðarár


26 júl. 2010

Nú eru komnir 307 laxar í veiðibókina og vantar ennþá nokkuð af veiddum fiskum frá hollinu sem kláraði á laugardag og svo er holl að klára veiði í dag. Þannig að við erum að skjóta á að veiðin sé komin í c.a. 340 laxa, jafnvel fleiri.

Veiðimenn á svæði 1. fengu 14 laxa á tvær stangir fyrir hádegi í gær og þeir sem voru á svæði 2. á sömu vakt lönduðu þremur löxum og settu í marga fleiri. Bullandi ganga hefur verið og vaxandi síðustu daga eftir smá rólegheit mitt á milli strauma.

Nú í kvöld heyrðum við frá veiðimönnum á svæði 2. sem sáu Árbugsárós alveg fullan af laxi sem var stökkvandi vítt og breitt, Sandur fullur af fiski og einnig svæðið við Efra klif. Við höfum ekki heyrt frá fleirum en gerum ráð fyrir því að alls staðar sé líf.

Mikill höfðingi er í Systrahvammi og lætur vita af því, sá hefur verið að sýna listir sínar með miklum tilþrifum síðustu daga bæði fyrir veiðimenn og gesti í Vaglaskógi. Vanir menn skjóta á að hann sé vel yfir 20 pundin...

Núna er veiðibókin komin á vefinn, þetta er nýjung sem við vitum að verður tekið vel í og ætlum við að uppfæra hana 2-3 sinnum í viku í sumar og vonandi koma á beinni skráningu á tölvutæku formi næsta sumar þannig að alltaf liggi fyrir nýjustu veiðitölur. Hægt er að sjá alla bókina eins og hún leggur sig á vefnum en við birtum ekki nöfn veiðimanna.

Klakkistur eru komnar niður vítt og breitt um ána og á sömu stöðum og síðastliðin sumur. Við biðjum veiðimenn um að skila fallegum 2ja ára fiskum í kistu ef þeir geta og fá þeir umbun fyrir, við þurfum bæði hænga og hrygnur en stórar hrygnur eru mikilvægastar. Það er lítið mál að fara með fisk í slöngu í 10-15 mín bíltúr ef það er ekki kista nálægt og nóg er að vatni með í plastinu.

Klakfiskarnir okkar eru stoðir í veiðinni næstu sumur og það þarf að passa að þeir jafni sig í kistunni eftir að hafa verið veiddir og að veiðimenn fari eins varlega með þá og þeir geta. Við viljum minna á að það er stranglega bannað að snerta á fiskum sem eru þegar komnir í klakkistur.

Laus veiðileyfi eru nú öll komin í vefsöluna, ekkert fleira er laust það sem eftir er sumars.


20 júl. 2010

Farið var í nokkrar klukkustundir í dag með tvær stangir í Fjarðará og fengust 5 sjóbleikjur, allar neðst á svæðinu og á bilinu 1-1,5 pund. Bleikjan var í uppítöku og veður frábært, sólskin og logn og mikil skemmtun að vera á svo afskekktum stað með allt iðandi af lífi hvort sem var um að ræða fugla, flugur eða fiska.

Veiðibækur fyrir Fjarðará eru bæði í Ellingsen og Jónsabúð á Grenivík.


16 júl. 2010

Fnjóská er komin yfir 180 laxa veiði sem er mjög gott miðað við 16. júlí.

Svæði 1. hefur verið smekkfullt af laxi lengi og síðustu daga hafa miklar smálaxagöngur verið að koma inn ásamt stórfiskum í bland. Flestar vaktir á svæði 1. gefa kvótann, sem eru 3 laxar á stöng á hálfum degi, en margir hafa fengið fleiri laxa og sleppt þeim aftur.

Veiðin á efri svæðunum er ekki komin alveg á fullt en það veiðast laxar á hverri vakt á hverju svæði og eykst veiðin með hverjum deginum þar sem smálaxinn er farinn að hrista upp í hyljunum.

Við höfum ekki frétt neinar sögur af silungasvæðinu og biðjum menn að láta okkur vita af gengi þar.

Við vitum ekki til þess að farið hafi verið með stöng í Fjarðará ennþá og þar er allt laust á næstunni. Bleikjan gekk snemma í allar ár í Eyjafirði og Fjarðaráin ætti ekki að vera undanskilin. Við fáum kannski fréttir af henni um eða eftir helgi þar sem stefnt er á að fara um helgina til að athuga hvort bleikjan er komin.


09 júl. 2010

Háfur fannst á dögunum við veiðistað 29, Vaðnesbreiðu. Sá er saknar hans er bent á að tala við Óla í síma 462 6263.

Fnjóská er nú orðin tær eftir rigningar síðustu daga, er frekar vatnsmikil en á hraðri niðurleið. Laxar fengust í gær á svæði 2 og svæði 4 þrátt fyrir skolað og mikið vatn og í morgun var mikið af laxi að ganga á 1. svæði og var sett í 7 laxa þar á stangirnar tvær. Nú undir kvöld fengum við fréttir frá veiðimönnum á svæði 3, þeir voru búnir að landa þremur löxum, 8 og 12 punda í Símastreng og svo einum 15 punda á Litlubreiðu.

Það eru ennþá laus leyfi á sunnudag, mánudag og þriðjudag í stökum vöktum á svæðum 2, 3 og 4.

Einnig eru nokkrar stangir lausar 22-24 júlí í 2ja daga pakka.

Þetta eru síðustu leyfin sem laus eru þangað til um miðjan ágúst.


07 júl. 2010

Síðustu daga hefur 1. svæði verið alveg smekkfullt af laxi og bleikju að ganga. Svíar sem voru að veiða í tvo daga fengu laxa á öllum svæðum og kvótann á 1. svæði eða 6 laxa. Þeir misstu þar lax sem var eitthvað yfir 20 pund, sá tók á Skúlaskeiði og náði að rífa úr sér við gömlu brúna þegar ljóst var að taka þurfti fast á honum ef ekki átti að synda niðureftir með honum. Þeir fengu einnig nokkrar fallegar sjóbleikjur. Allt var þetta á flugu og öllu sleppt aftur.

Við fengum fréttir frá mönnum sem voru á svæðinu á sama tíma og einnig frá þeim svo voru á eftir og sáust þá 15 laxar á Hellunni, 10 á Malareyri, 20 í Klapparhyl, 20 í Kolbeinspolli og svo var fullt af laxi á Skúlaskeiði og Bjarghorni en þar er erfiðara að átta sig á fjöldanum.

Af efri svæðunum er að það að frétta að lax er farinn að veiðist á hverri vakt á öllum svæðum.

Vegna forfalla fengum við í endursölu 4 stangir 22. - 24. júlí og eru þær í vefsölunni hjá okkur. Miðað við gengi þetta árið þá má segja að þetta sé á allra besta tíma. Sjá hér


04 júl. 2010

Nú er farið að veiðast á öllum svæðum í Fnjóská. Veiðimenn sem voru með tvær stangir í tvo daga lönduðu 13 löxum, flestum á 1. svæði en fjóra af þeim uppi í á.

Okkur bárust veiðisögur frá tveimur aðilum sem voru að veiða núna í vikunni.

Var það annars vegar Friðgeir Valdimarsson sem fór á 3. svæði og lenti í ævintýri á Hrísgerðisbreiðu.

"Byrjaði þar með sunray og það kom lax upp í hana en náði henni ekki. Skipti þá yfir í sökklínu og hann var á! Þetta var reyndar smálax 5-6p sem skemmti mér um stund en stökk og losaði sig. Ég hélt áfram niður hylinn og neðarlega tók annar og stærri. hann lagðist ca. 3 metrum fyrir framan mig og hékk þar í nokkrar mínútur en synti reglulega til hliðar og lagðist aftur. Það var sama hvað ég tók fast á honum það virtist hafa lítil áhrif en allt í einu tók hann að færa sig frá mér en samt mjög rólega. Hann var kominn langleiðis að bakkanum hinum megin og herti ég alltaf á honum því það var stutt í undirlínu en ég hafði ekkert í hann og ekki séns að stoppa hann. Hann tók svo upp á því að fara upp strauminn og var má segja kominn upp úr hylnum þegar hann sleit.
Ég hef fengið þó nokkra 16-17p laxa í gegnum tíðina en þessi var eitthvað stærri, ég sá hann aldrei. "

Ólafur Kristjánsson var á 1. svæði sama dag og sagði það hafa verið loðið af laxi. Þeir fengu kvótann, 3 laxa, fyrir klukkan 11 að morgni og 4 bleikjur sem allar voru 2,5 - 3 pund. Þeir töldu 12 laxa á Hellunni, sögðu Kolbeinspollinn fullan af laxi og sáu slatta á Malareyri. Einnig sáu þeir um 20-30 laxa neðan við laxastigann.


30 jún. 2010

Fnjóská er nú komin í rúmlega 40 laxa og flestir tveggja ára fiskar. Einnig hafa veiðst um 40 sjóbleikjur og þær flestar í stærra lagi þetta árið, margir hafa haldið sig vera með vænan lax undir þar til þær hafa náð landi enda er sjóbleikja á bilinu 3-7 pund afar spræk svona nýgengin. Þetta er aldeilis góð veiði miðað við að aðeins hafi verið veitt á tvær stangir á dag fyrir utan nokkrar skreppur á efri svæðin.

Á laugardagsmorgun fékkst lax á svæði 2 , var þar um að ræða smálax sem fékkst í Vegeirsstaðarkvísl. Síðustu daga hafa sést nokkri smálaxar niður á svæði 1. í bland við stórlaxana en ennþá er tveggja ára fiskurinn í meirihluta.

Þeir sem voru að veiða í gærmorgun lönduðu 5 löxum og misstu tvo til viðbótar, þar af einn stóran í Rauðhyl en þar sáu þeir eina 7-8 væna laxa. Hinir voru á Skúlaskeiði, Malareyri, Efra lækjarviki og Kolbeinspolli, tveir smálaxar um 5-6 pund en hinir 11-14 punda. Einnig fengu þeir 5 bleikjur og tvær það vænar að þeir töldu að um lax væri að ræða þangað til þeim var landað.

Við skoðuðum veiðitölur frá síðasta sumri, þá veiddust 10 laxar í júní og allir á svæði 1. Enginn lax fékkst á efri svæðunum í júní. Þar truflaði mikið og kalt vatn og var áin mjög erfið viðureignar þangað til fyrstu dagana í júlí. Fiskur gekk illa upp og hékk niðurfrá lengi frameftir en núna í ár var Fnjóská mjög fljót að jafna sig, ásamt því að lax og bleikja gekk snemma og fiskurinn rýkur uppeftir þessa dagana.

Við höfum ekki heyrt frá þeim sem voru að veiða í gærkveldi en segjum fleiri fréttir um leið og þær berast. Við hvetjum menn til að senda okkur fréttir og veiðisögur.

Mynd: Litlabreiða á svæði 3.


28 jún. 2010

Ath! Ein stöng losnaði á svæði 1. á miðvikudagsmorgun, sjá vefsölu.

Á föstudag veiddust tveir laxar, 13 og 15 punda í Kolbeinspolli og á Hellunni. Einnig var sett í fjóra laxa til viðbótar á Skúlaskeiði og í Rauðhyl á föstudagskvöld þegar ganga fór þar í gegn en sluppu allir.

Á laugardagsmorgun sáust sex laxar á Hellunni, þar af tveir á milli 15 og 20 pund. Þar náðust nokkrar vænar bleikjur en þessir laxar gáfu sig ekki. Það gerðu þó tveir laxar á Skúlaskeiði og Malareyri og voru um 12-14 pund.

Á laugardagskvöld veiddust þrír laxar, í Efra Lækjarviki, Malareyri og á Hellunni, allir 12-14 punda. Einnig veiddist stórbleikja, hún var 8,5 pund! Fleiri slíkar hafa sést og náðst 6-7 punda bleikjur en þessi er sú stærsta sem af er sumri.

Þetta er að gerast á svæði 1. þar sem aðeins er veitt á tvær stangir og ekki er upptalið slangur af fallegri sjóbleikju sem einnig hefur veiðst. Búið er að vera talsvert af laxi í Kolbeinspolli síðustu daga en stoppar stutt við, bæði lax og bleikja er nú farin að fara hratt í gegn um hávaðana og upp í á, enda stórstreymt og vatnið afar hagstætt fyrir fisk að ganga stigann.

Á laugardagsmorgun fengu veiðimenn á 4. svæði tvær sjóbleikjur í Systrahvammi, 3-4 punda og settu einnig í stóran lax sem tókst að slíta snögglega. Þar var ungur veiðimaður á ferð sem var að renna fyrir bleikju og átti alls ekki von á þessu og því fór svo. Þeir urðu einnig varir við lax við gömlu bogabrúna. Fleiri veiðimenn voru að reyna fyrir sér á efri svæðunum um helgina og við biðjum þá sem urðu varir við lax eða sjóbleikju að láta okkur vita með fréttir. En það er semsagt orðið þannig að laxinn er kominn uppeftir og spurning hvenær sá fyrsti kemur á land ef það hefur ekki þegar gerst.

Nú í kvöld var göngubrúin sett niður á 1. svæði og hittum við þar fyrir veiðimenn sem voru að koma í fyrsta skipti og búnir að vera að veiða í dag við rólega ástundun, þeir höfðu landað tveimur löxum og séð töluvert af fiski stökkva. Annar laxinn sem veiddist var smálax svo greinilegt að hann er snemma líka.

Næstu daga eru laus leyfi á efri svæðunum og á afar góðu verði, bæði lax og bleikja gekk snemma og stóru fiskarnir eru komnir upp í á. Hægt er að fá stakar vaktir fyrir 3.000 - 4.000 næstu daga. Uppselt er á 1. svæði fram til 8. júlí en þá eru lausar fjórar stangir í tvo daga þar sem farið er yfir öll svæði.

Við ítrekum að veiðibækurnar eru í Ellingsen á Tryggvabraut og skylt er að skrá allan afla. Gefist mönnum ekki kostur á að koma við í Ellingsen má senda okkur tölvupóst á sigring@nett.is eða ingvark@nett.is og við komum aflanum í bókina.


20 jún. 2010

Við heyrðum frá veiðimönnum sem voru að veiða í gærmorgun og urðu varir við laxa og bleikjur á mörgum stöðum, meðal annars sáu þeir þrjá laxa í Efra lækjarviki og reyndu mikið við þá en lítið gekk, þeir bara tóku ekkert sem boðið var upp á.

Það dró hins vegar til tíðinda á seinnipartsvaktinni þegar líða fór á kvöld, þá lenti Ólafur Kristjáns í ævintýri í Kolbeinspolli þegar hann fékk stórlax á einhenduna á frances keilu númer 12. Eftir rosalega baráttu brotnaði stöngin og leit þá út fyrir að laxinn hefði betur en fyrir rest náðist að landa honum. Þrátt fyrir tilraunir tókst ekki að koma honum aftur í ána og því andaðist hann upp úr 21:30. Laxinn var veginn og vigtaður 19 pund.

Stöngin sem var að veiða á móti Ólafi fékk einnig lax í Kolbeinspolli, sá var maríulax Darra Þorsteinssonar og var um 12 pund. Til hamingju með það Darri.

Við höfum ekki heyrt frá veiðimönnum sem voru að veiða í dag en komum með fréttir jafnt og þær berast.

Veiðibókin er í Ellingssen á Tryggvabraut og samkvæmt reglum er skylt að skrá afla eins fljótt og auðið er. Einnig hvetjum við menn til þess að senda okkur línu til að láta vita af veiði og veiðisögum.

Mynd: Ólafur með glæsilegan hæng veiddan í Kolbeinspolli. Sá gaf sig ekki fyrr en í fulla hnefana.


19 jún. 2010

Það komu þrír laxar á land í morgun. Einn neðarlega í Kolbeinspolli, annar á Merkjabreiðu og sá þriðji á Skúlaskeiði. Allt voru þetta fallegir 2ja ára fiskar í kring um 10 pundin, bland af hængum og hrygnum. Vatnsmagn hefur minnkað verulega og áin orðin nánast alveg tær. Fleiri laxar sáust ásamt því að stórbleikjur gerðu vart við sig.


17 jún. 2010

Fnjóská var opnuð í dag af stjórnarmönnum Flúða og afraksturinn var vonum framar.

Vatnsmagnið hefur verið mikið undanfarið, áin oft á tíðum mjög lituð og því ekki verið árennileg að sjá. Engu að síður var ákveðið að láta á það reyna hvort sá silfraði væri mættur enda vatnsmagnið á hraðri niðurleið og sjáanlegur munur með hverjum klukkutíma sem líður.

Veitt var í rúmar 3 klukkustundir og var sex löxum landað og einni stórbleikju. Þrír laxar til viðbótar losuðu sig við veiðimenn með látum.

Laxarnir voru dæmigerðir fyrir Fnjóská snemma sumars, tveggja ára fiskar í kringum 10 pundin, þykkir og fallegir. Það er að segja allir nema einn - því sá var í kringum 19,5 pund!

Þrír laxar veiddust ofantil á Merkjabreiðu, tveir laxar veiddust í Neðra lækjarviki og aðrir tveir töpuðust þar. Einn veiddist í Efra lækjarviki og svo tapaðist lax í Kolbeinspolli. Stór bleikja veiddist einnig í Efra lækjarviki og var hún um 6 pund. Helmingur laxanna var lúsugur.

Fleiri laxar gerðu vart við sig og sáust. Til að mynda voru 4 laxar í laxastiganum sem voru í þann mund að smella sér upp í á.

Það er greinilegt að bæði laxinn og bleikjan er snemma á ferðinni í ár í Fnjóská eins og í flestum öðrum ám og vonandi er það vísir að góðu sumri.

Gústi með tvo fallega laxa

Ingvar Karl með boltableikju


08 maí 2010

Nú hefur verið bætt í vefsöluna öllum lausum laxveiðileyfum í júní og júlí.

Um er að ræða bæði staka daga og tveggja daga holl.

Verið er að ganga frá örfáum lausum endum í ágúst og september þessa dagana, um leið og því er lokið munu laus leyfi á því tímabili einnig verða aðgengileg í vefsölunni.

Mynd: Kolbeinspollur og Hellan sem gefa vel snemma sumars.


26 apr. 2010

Nú hafa lausir dagar á silungasvæðinu í Fnjóská verið settir í vefsöluna.

Ennþá eru góðir dagar á lausu, sjá hér

Það styttist í það að laus laxveiðileyfi í Fnjóská komi á vefsöluna hjá okkur. Fylgist með á næstu dögum.


13 apr. 2010

Nú eru veiðileyfi í Fjarðará fyrir komandi sumar komin í vefsöluna hjá okkur. Hægt er að skoða yfirlit yfir lausa daga með því að smella á Fjarðará hérna vinstra megin á síðunni. Einnig má skoða leyfi með því að smella hér

Næstkomandi laugardag, þann 17. apríl, verður aðalfundur Flúða haldinn í Sveinbjarnargerði og hefst hann kl 14:00. Á dagskrá eru:

1. Aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins.
2. Yfirstandandi ræktunarátak í Fnjóská, framsöguerindi og umræður.

Slepping gönguseiða í fyrra gekk með afbrigðum vel, líklegast til sú besta frá upphafi og því búist við kröftugum smálaxagöngum í sumar. Í ræktunartjörninni eru núna um 45.000 seiði sem eru mjög vel haldin og verður þeim fljótlega dreift um tjarnir í ánni til sleppingar í vor.

Nú er úthlutun í Fnjóská á lokastigi og laus veiðileyfi væntanleg í vefsöluna hjá okkur innan fárra daga. Ennþá má finna nokkur góð veiðileyfi og eftir að vefsalan opnar gildir "fyrstur kemur fyrstur fær".


02 jan. 2010

Stangaveiðifélagið Flúðir
óskar félagsmönnum sínum
og öðrum veiðimönnum
gleðilegs árs með þökk fyrir það liðna.

Úthlutun veiðileyfa til félagsmanna er nú að hefjast.
Að henni lokinni verða laus veiðileyfi
til sölu hér á síðunni.


Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.