Fréttasafn

21 des. 2012

Flúða-félagar athugið:
Umsóknargögn fyrir veiðileyfi 2013 voru nýlega send félagsmönnum í Flúðum.
Þeir félagar sem ekki hafa fengið slík gögn í hendur eða í tölvuna sína, vinsamlegast látið vita sem fyrst.
Með veiðikveðju,
Stjórn Stangaveiðifélagisins Flúða


24 sep. 2012

Svavar Hávarðsson skrifar eftirfarandi á Veiðivísi:

Áhugi Íslendinga á veiði, og ánum sem gefa okkur bráðina, er ekki nýr af nálinni. Þegar gluggað er í gömul blöð og tímarit má lengi finna áhugaverða greinarstúfa um eitt og annað sem þessu áhugamáli viðkemur og eins um vistkerfi ánna og fikti okkar mannanna; fiskræktinni.

Ingimar Eydal og Fnjóská
Sumarið 1943 skrifaði til dæmis Ingimar Jónatansson Eydal ritstjóri í blað sitt Dag á Akureyri að merkilegir hlutir væru að gerast við Fnjóská, en þar hefði gengið um bakka enskur vísindamaður og aðal veiðimálaráðunautur Bretlands sex árum fyrr og staðfest að Fnjóská væri að verða ein besta bleikjuveiðiá í víðri veröld. Ástæða þessa væri friðun bleikjunnar og einstakt ræktunarstarf til margra ára.

Skrif Ingimars voru formáli aðsendrar greinar Ólafs Sigurðssonar, fiskveiðiráðunauts ríkisins, sem þá hafði í hringferð sinni um landið komið að Fnjóská til athugana á stofni árinnar og framgangi ræktunarstarfsins sem þar var stundað. Fyrirsögn greinar Ólafs, Eyfirzkar bergvatnsár og bleikjurækt: Merkilegur árangur af friðun veiðivatna, segir sína sögu en fróðlegt er þó að rína í textann og lesa á milli línanna; ekki síst með þá mýtu, vil ég kalla, að allar ár hafi verið fullar af fiski í gamla daga og veiðin í dag sé húmbúkk í samanburði.

Í greininni, segir Ingimar, og er sammála Ólafi, að með réttum aðferðum sé auðvelt "að auka stórum fiskimergð í eyfirzkum bergvatnsám, og geti Eyjafjörður þannig á fáum árum orðið eitt hið frægasta bleikjuveiðisvæði, en sú veiði er nú í miklum metum og mjög eftirsótt meðal veiðimanna úti um allan heim."

Nærtækast er að gefa Ólafi orðið, en hann sat við skriftir á Hellulandi 22. ágúst 1943, en umrædd fiskrækt eru umsvif bresks lávarðar, Lionel Fortescue, sem um árabil hafði Fnjóská á leigu og ræktaði þar lax og bleikju, byggði fiskvegi og færði til landsins eitt og annað sem víkja þarf að síðar.

En Ólafur skrifar:


10 sep. 2012

Merkibyssa týndist við ána núna eftir miðjan ágúst. Vinsamlegast látið okkur vita ef einhver hefur orðið hennar var.

Kippa með Mitsubishi bíllykli o.fl. fannst við veiðihúsið Skarð í Fnjóskadal.

Nánari upplýsingar í 892 8801.


14 ágú. 2012

Laxveiði í Fnjóská hefur ekki staðið undir væntingum nú í sumar en það sama má segja um flestar aðrar laxveiðiár sem við höfum frétt af. Smálaxinn hefur ekki látið sjá sig í neinu magni og gerir það veiðina rólega - en það er alltaf kropp og nokkur skot inn á milli hér og þar.

Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru biðlum við hjá Flúðum til veiðimanna í Fnjóská að allur 2ja ára fiskur fari í klakkistu eða sé sleppt í ána aftur sé ekki mögulegt að koma honum í kistu. Einnig að fallegar smálaxahrygnur fái líf nú á haustdögum, annað hvort í kistu eða í ánni.

Við fórum yfir veiðibækurnar í dag og þá voru skráðir 196 laxar en vitað að eftir er að skrá einhverja frá síðustu 2 hollum sem voru að veiða. Af laxasvæðum eru komnir rúmlega 240 silungar í bók og rúmlega 100 af silungasvæðinu við Illugastaði.

Stórurriði veiddist í Vatnsleysuhyl sunnudaginn 7. ágúst og vigtaði hann nákvæmlega 3,92 kg og var 72cm á lengd. Sá var stútfullur af laxaseiðum. Með urriðann, þá gilda önnur sjónarmið því við viljum ekki hleypa honum meira inn í vatnakerfið en þegar er. Hann er í örum vexti í ánni og hefur mikið veiðst af honum í sumar og því æskilegt að öllum urriða sem veiðist sé lógað áður en hann nær þeirri stærð að fara að hafa mikil áhrif á seiðabúskap lax og bleikju.

Mynd: 8 punda urriði sem Örn Svarfdal veiddi í Vatnsleysuhyl 7. ágúst

-ikþ


26 júl. 2012

Nú eru skráðir um 120 laxar og um 200 silungar í veiðibækur Fnjóskár. Eftir góða byrjun þá dalaði veiðin í laxinum og bíða menn núna og vonast eftir því að smálaxinn sýni sig í einhverjum mæli. Víða annars staðar á norðurlandi er ástandið eins, veiðin frekar róleg og lítið um smálax.

Silungsveiðin hefur verið með góðu móti og mikið af fallegri sjóbleikju að ganga í ána og meira en síðustu ár sem er mjög jákvætt.

Við minnum menn á klakkisturnar og að setja stórlaxa, sérstaklega hrygnur, í klakkistu og láta vita. Það er mjög áríðandi að við fáum góða klakfiska núna fyrir framtíðina.

Kisturnar eru staðsettar á eftirfarandi stöðum:
Kolbeinspolli
Árbugsárós að austan
Sandi að vestan
Eyrarbreiðu að austan
Ofan Eyrarbreiðu að vestan
Flúðum að austan
Systrahvammi að vestan

Við minnum svo menn enn einu sinni á að skrá afla í veiðibækur strax að lokinni veiðiferð en líkt og oft áður þá vitum við um nokkra seldar stangir sem eiga eftir að skrá veiði.

Veiðibókin er orðin sýnileg á vefnum og verður uppfærð 1-2 í viku það sem eftir er að sumri.


23 júl. 2012

Tveir veiðimenn veiddu 20 bleikjur á einum degi í Fjarðará í Hvalvatnsfirði.

Kjartan Páll Þórarinsson og veiðfélagi hans voru við veiðar mánudaginn 16júlí og gerðu mjög góða veiði.

Allt í allt lönduðu þeir félagar 20 bleikjum og einum sjóbirtingi og sögðust hafa misst alveg annað eins.

Mest megnis voru þeir að fá bleikjurnar á Krókinn eða rúmlega helminginn af aflanum, en Krókurinn er einmitt hönnuð af honum Gylfa heitnum Kristjánssyni og er með betri silungaflugum landsins.

Allt voru þetta vænir fiskar eða um 35-40cm.

Laus veiðileyfi og lýsingu á Fjarðará-Hvalvatnsfirði má sjá á vefsíðu Svak, www.svak.is

Fréttin er fengin af vefsíðu Svak.


28 jún. 2012

27. júní kom þessi 95 cm hængur úr Nesbugðu á 4. svæði og er hann líklega sá fyrsti sem kemur á land úr uppánni þetta sumarið.
Ingvar Karl Hermannsson (þessi með sólgleraugun) fékk hann á létta óskírða heimagerða túpu.

28. júní veiddi Valur þór Sigurðsso11 punda lax í Stekkjarhyl á svæði 3.


24 jún. 2012

Nú er búið að landa a.m.k. 10 löxum í Fnjóská og setja í álíka marga sem hafa sloppið. Vaktirnar á svæði 1 hafa verið að gefa 1-2 laxa hver þegar aðstæður hafa verið góðar, veiðimenn hafa verið að setja í fleiri en töluvert um að þeir sleppi, enda stórlaxar á ferðinni og svæðið vatsnmikið og straumhart.

Á föstudagskvöld sáust svo fyrstu laxarnir "upp í á" og það á efstu stöðum á laxasvæðinu. Einn lax sást í Lygnu (66) og var mikið reynt við hann áður en hann lét sig hverfa. Annar sást í Systrahvammi (59) ofan við brúnna, sá var í stærra lagi og blasti við gestum sem voru á göngu yfir brúna í Vaglaskógi. Eftir að hafa fengið nokkur köst á sig lét hann sig hverfa út í djúpið og sást ekki meir á þeirri vaktinni. Líklega eru skýringarnar á þessu áhugaleysi ört vaxandi vatn á seinni vaktinni enda var hitastig inni í Fnjóskárdal um 20 gráður klukkan 18.

Undirritaður var á svæði 1 í enda vaktar á föstudagskvöld við smávegis lagfæringar á stiganum og á stuttum tíma sáust 3 laxar skella sér inn í Kolbeinspollinn með tilheyrandi stökkvum og látum upp af brotinu - allir vænir fiskar.

Framkvæmdum við laxastigann er nú lokið og sagði okkur einn flúðafélagi sem hefur veitt í ánni í tugi ára að hann hefði aldrei séð stigann jafn fallegan og auðgenginn fyrir fisk.

Ekki hefur ennþá sést til sjóbleikju, en síðustu 2-3 árin hefur hún verið snemma á ferðinni, nýgengnar bleikjur hafa veiðst í opnun og á fyrstu dögum. Við spurðum Erlend Steinar sem hefur verið að merkja og rannsaka hegðun sjóbleikju í Eyjafirði síðustu árin. "Hvað veldur, hvar er sjóbleikjan?"

"Það er gott að hún er seinna á ferðinni, það er þá vonandi að fara í sama far og var áður, bleikjan gengur inn í árnar í Eyjafirði upp úr byrjun júlí og göngur verða jafnari og betri líkt og áður fyrr."

Við vonum að þetta sé rétt hjá Erlendi Steinari, síðasta haust var mikið um haustbleikju neðst í Fnjóská og menn veiddu vel. Allt voru þetta fallegar bleikjur um 1,5 pund. Rúmlega 50 stk voru merktar og sleppt aftur í rannsóknarskyni og verður fróðlegt að sjá hvort þær mæta aftur í ár sem hrygningarfiskar í Fnjóská - eða í aðrar ár í Eyjafirði.

Við hvetjum veiðimenn sem ná að landa stórum bleikjum til þess að gefa þeim líf. Ólíkt laxinum, þá hrygnir bleikjan ár eftir ár og stækkar 5-6cm á ári - stórar bleikjur gefa af sér stærri og fleiri hrogn.

Mynd: Erlendur Steinar glaðbeittur í Fnjóská

-ikþ


18 jún. 2012

Uppfært 19.6:
Í morgun náðist einn lax í Kolbeinspolli og sett var í annan sem ekki náðist í Skúlaskeiði. Um 10 laxar sáust í Kolbeinspolli og lax sást einnig í stiganum.

Nú um helgina opnuðu Flúðamenn fyrir veiði í Fnjóská ásamt því að gera klárt fyrir veiðisumarið. Meðal þess sem var gert var að möl var mokuð upp úr laxastiganum með stórtækum vinnuvélum og vegur að vestanverðu hreinsaður ásamt því að veiðihúsin voru gerð klár.

Lax sást víða á svæðinu en það var ekki auðvelt að setja í þá og ná þeim. Einn lax náðist í Brúarlagshyl (efst í Kolbeinspolli) og var það 12 punda nýrunninn hrygna sem var sleppt aftur eftir viðureignina. Sett var í 2 laxa til viðbótar, einn í Neðra-Lækjarviki sem sleit sig lausan og annan í dag á Bjarghorni sem náði einnig að losa sig við veiðimanninn.

Laxar sáust í Klapparhyl, Bjarghorni, Neðra-Lækjarviki og Brúarlagshyl og voru þetta allt fallegir 2ja ára laxar.

Fnjóská er frekar vatnslítil núna miðað við árstíma og veldur það því að laxinn rýkur beint í gegnum neðsta svæðið og þaðan upp í á þar sem hann dreifir sér. Að öllum líkindum ættu að veiðast laxar í uppánni í júní en í fyrra var það ekki fyrr en 10. júlí sem það gerðist sökum vatnsmagns.

Almenn veiði er nú hafin og veiðimenn á efri svæðunum eftir hádegi í dag hafa orðið varir við töluvert staðbundinni bleikju og urriða, einn setti til að mynda í 4 bleikjur og landaði einni þeirra, allar um 2ja punda. Ekki hafa menn fundið lax þar efra enn sem komið er enda áin löng og vatnsmikil og því felur hún auðveldlega nokkra tugi laxa.

Mynd: Erlendur Steinar tók þessa mynd af neðsta veiðisvæðinu í Fnjóská núna um helgina.


19 maí 2012

Nú er úthlutun veiðileyfa lokið og laus veiðileyfi komin í vefsöluna hérna á síðunni.

Eitthvað er laust af vöktum á vordögum og svo nokkrar 2ja daga stangir sem og stakar vaktir á haustdögum.

Veiðileyfi í Fjarðará eru komin í sölu á vefsíðu Stangaveiðifélags Akureyrar, www.svak.is og þar má einnig finna nánari upplýsingar og myndband með leiðarlýsingu.

Nú er aðeins mánuður í opnun í Fnjóská og vonandi verður gott vor með stöðugu og hægminnkandi vatni í ánni en eins og flestir vita var veiði í fyrra oft á tíðum erfið til að byrja með sökum vatnsmagns og kulda.

Góða skemmtun á árbakkanum!

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.