Fréttasafn

26 des. 2013

Við óskum félagsmönnum okkar sem og öðrum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Við þökkum fyrir samstarfið á þessu ári og vonumst til að allir hafi notið góðs af.

Umsóknareyðublöð hafa nú verið send út til félagsmanna og er frestur til að skila inn umsóknum til og með 12. janúar 2014.

Við stefnum á að ljúka úthlutun sem fyrst og munum við þá kynna hverjum félagsmanni sína úthlutun og taka við athugasemdum.

Að úthlutun til félagsmanna lokinni fara óseldir dagar í almenna sölu á heimasíðu okkar, þar sem utanfélagsmenn greiða 20 % hærra gjald en félagsmenn. Áfram verður selt í 2 samliggjandi dögum, en þó verður hægt að kaupa hálfa daga eftir að veiði hefst, en slíkir dagar verða nokkru dýrari.


17 sep. 2013

Ákveðið var að bjóða upp á silungsveiði á neðsta svæðinu í Fnjóská núna út september. Veiði hefur oft á tíðum verið góð í bleikju þarna niðurfrá þegar líða fer á haustið þó við höfum litlar fréttir af henni núna en skýringin frekast sú að ekki hefur verið reynt ennþá.

Við bendum á það að leyfin gilda aðeins neðan gömlu brúar.


02 ágú. 2013
Hollið sem lauk veiðum á hádegi 1. ágúst var með 24 laxa. Þeir veiddust á öllum svæðum og urðu menn víða varir við laxa. 
31. júlí fékkst nýgenginn smálax á veiðistað nr. 80, sem er efsti merkti veiðistaður á silungasvæðinu.

29 júl. 2013
Síðustu daga hefur Fnjóská loksins dottið niður í vatnsmagni og er nú komin undir 60 rúmmetra.
Að minnsta kosti fimm laxar veiddust á efri svæðunum í gær.

26 júl. 2013

Nú er orðið fært út í Fjörður og við heyrðum frá veiðimönnum sem voru að veiða þar núna í dag. Áin er hrein og tær ólíkt mörgum öðrum í Eyjafirðinum um þessar mundir. Þeir sem eru við veiðar höfðu ekki orðið varir við bleikju í sjálfri ánni en voru búnir að landa nokkrum og setja í fleiri í fjörunni þar sem áin kemur út í sjó.

Vegurinn var mokaður af vegagerðinni og ennþá eru háir skaflar við hann sem eru að bráðna og veiðimönnum því bent á að fara ekki af stað nema á vel búnum bílum þar sem það getur verið mikil bleyta á veginum.


24 júl. 2013
Eftir birtingu fréttar okkar um fyrstu laxana sem veiddust ofan stiga fengum við upplýsingar um lax sem veiddist 17. júlí á spón í Bakkahyl á 3. svæði.  Þessi lax telst því vera fyrsti laxinn sem veiðist ofan stigans þetta sumarið.

22 júl. 2013

Fyrstu laxarnir veiddust ofan laxastigans í Fnjóská 20-22. júlí.

Sá fyrsti kom 20. júlí á spón úr Neslæk á 4. svæði, síðan kom einn lax 21. júlí á flugu úr Systrahvammi á 4. svæði og einn lax 22. júlí á flugu úr Árbugsárós á 2. svæði.

Þetta er töluvert seinna en undanfarin ár, þar sem fyrstu laxarnir hafa oftast komið á land fyrstu dagana í júlí og einstaka sinnum í lok júní. Áin hefur verið mjög vatnsmikil og köld það sem af er sumri, og það hafa því ekki verið skilyrði til þess að stiginn væri fiskgengur, þó svo að hann hafi verið opinn frá upphafi veiðitímans um miðjan júní.

Vænta má að nú sé loksins að draga úr vatnsflaumnum og Fnjóská fari að komast í sumarbúninginn með veiði um alla á.


12 júl. 2013

Eins og staðan er núna er ófært út í Hvalvatnsfjörð og verður það líklega eitthvað fram eftir mánuði.

Við höfðum samband við heimamenn sem fóru með fé til beitar fyrir stuttu. Að þeirra sögn þarf að leita 20 ár aftur í tímann til að sjá eins mikið fannfergi og nú er.

Því bendum við veiðimönnum á að athuga með færð áður en farið er í að kaupa veiðileyfi.

Þeir veiðimenn sem hafa þegar keypt veiðileyfi og komast ekki vegna ófærðar geta haft samband við okkur þegar að því kemur. Ef það er ekki fært munum við bjóða þeim sambærileg veiðileyfi án endurgjalds þegar hægt verður að komast á veiðislóðirnar.

Mynd: Það er fallegt útsýni á ósasvæðinu í Fjarðará og vonandi verður þetta svona seinna í sumar.

-IK-


08 júl. 2013
Veiðimenn athugið að vegna brúarvinnu verður Fnjóskadalsvegur eystri lokaður við Þverá í Dalsmynni frá kl 13:00 í dag mánudaginn 8. júlí til kl.19:00 fimmtudaginn 11. júlí.  Ekki er því hægt að aka Fnjóskadalsveg frá 1. svæði og upp á efri svæðin, en veiðimönnum er bent á að fara Víkurskarðið.  
Einnig er vegslóðinn upp með 1. og 2. svæði vestan árinnar ófær vegna skemmda en hann verður lagfærður á næstu dögum.  

08 júl. 2013
Fnjóská er búin að vera vatnsmikil og köld það sem af er sumri en er nú óðum að komast í gott lag. Enn sem komið er hefur ekki komið lax af efri svæðunum en þau ættu að detta inn fyrr en varir.
Þeir laxar sem hafa komið á land á 1. svæði , eru flestir stórir og vel haldnir og síðustu daga hafa m.a. veiðst stórir hængir (8 kg). 
Menn hafa verið að setja í stórar og fallegar sjóbleikjur á 1. svæði og þær fyrstu sem veiðast ofan stigans fengust á 3. svæði 7. júlí. 

17 jún. 2013

Nú um helgina fóru stjórnarmenn að Fnjóská og bleyttu þar færi til að athuga hvort lax væri mættur á svæðið. Aðstæður voru með erfiðara móti en þó betri en oft áður á þessum fyrstu dögum veiðitímanns. Áin var um 4 gráður og frekar vatnsmikil, eða um 130-140 m3 og lítillega skoluð.

Tveir laxar komu á land og voru báðir 2ja ára fiskar sem voru tæpir 80 cm. Þeir veiddust á Malareyri og í Efra-Lækjarviki. Annar þeirra var lúsugur en hinn hafði greinilega verið þó nokkra daga í ánni.

Nú í sumar verður sú breyting á að allur afli úr Fnjóská verður skráður hér í gegnum vefsíðuna okkar og því verða ekki veiðibækur í Ellingsen líkt og undanfarið. Til að skrá afla þarf að skrá sig inn í kerfið hjá okkur en það þarf aðeins að gera einu sinni. Þar velja veiðimenn sér lykilorð og nota það framvegis til þess að skrá afla.

Það er okkar von að þetta sé þjónusta sem veiðimönnum komi til með að líka vel við, enda geta þeir skráð aflann hvar og hvenær sem er ef þeir eru tengdir við internetið. Við ítrekum þó að það er mikilvægt að vanda skráninguna og skrá afla eins fljótt og auðið er eftir að veiðum er hætt - líka silung.

Mynd: Sigurður Ringsted formaður Flúða með fyrsta veidda laxinn úr Fnjóská í sumar.


30 apr. 2013
Aðalfundur Stangaveiðifélagsins Flúða fyrir árið 2012 verður haldinn kl. 20.00 miðvikudaginn 8. maí 2013 á Sveitahótelinu Sveinbjarnargerði.

Dagskrá

1. Aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins.
2. Ræktun í Fnjóská - framsöguerindi og umræður.
3. Veiðihús.
4. Önnur mál

Nánar auglýst með bréfi til félagsmanna í pósti.

Eitthvað er ennþá laust af veiðileyfum í Fnjóská og verða þau sett inn á vefinn í almenna sölu að loknum aðalfundi.

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.