Fréttir

12 apr. 2006

Veiðileyfin komin á vefinn

Nú hafa veiðileyfi fyrir næsta sumar verið sett á vefinn og hægt að kaupa líkt og síðustu sumur. Leyfin sem hafa verið sett inn eru dagar á svæði 5. og 6. og leyfi fyrri hluta sumars á svæðum 1. - 4. Uppselt er á svæði 1. - 4. frá miðjum júlí og fram til loka ágúst en ennþá eru laus leyfi seint í ágúst og í september og verða þau færð inn fljótlega.

Aðalfundur Flúða var haldinn á dögunum og ásamt mörgu fleiru var þar rýnt í veiðitölur og Dr. Tumi Tómasson í félagi við Pétur Brynjólfsson héldu fyrirlestur um stöðu mála varðandi ræktunarátakið í Fnjóská.

Þeir sögðu frá því að samkvæmt rafveiðum væri náttúrulegt klak í góðu ástandi, skilyrði hefðu breyst til hins betra í ánni og við það væru nú laxaseiði að meirihluta að dvelja 3. ár í ánni áður en þau færu til sjávar í stað þess að dvelja 4. - 5. ár eins og verið hefur.

Síðasta sumar gaf 452 laxa í heildina og var meðalþyngd 3,6 kg. Gaman er að segja frá því að veiðin dreifðist mjög vel og öll laxasvæðin voru yfir 100 löxum. Svæði 1. var með 103 laxa, svæði 2. með 117, svæði 3. með 115 og svæði 4. með 106 laxa. Aflahæsti veiðistaður var að þessu sinni Kolbeinspollur með 52 laxa eða 11,5% af heildarveiði. Næst á eftir kom Ferjupollur með 37 laxa. Góð veiði var í Kolbeinspolli langt fram á haust og veiddist vel þar í september sem og aðra mánuði og var þá bæði um nýgengna sem og legna fiska að ræða. Það vekur mikla athygli að öll laxasvæðin gáfu af sér laxa í júní síðasta sumar, gengið var á elstu menn og ekki nokkur þeirra man til þess að það hafi gerst áður.

Nú hafa um 30 þúsund seiði verið í tjörninni við Draflastaði frá miðjum vetri og koma þau til með að dreifast í sleppitjarnir víðs vegar um ána á næstunni. Einnig bætast við 10 þúsund seiði í vor sem fara í tjarnirnar.

Síðasta vor fóru 40 þúsund gönguseiði til sjávar og sumarið þar á undar var sleppt töluverðu magni af sumaröldum seiðum sem ættu að vera að týnast niður núna sem gönguseiði. Því er engin ástæða til annars en bjartsýni á næstu sumur og öruggt að margir eiga eftir að eiga ánægjulega daga við Fnjóská.

Meðfylgjandi myndir eru frá síðasta sumri. Á efri myndinni má sjá Pétur Brynjólfsson með annan lax sumarsins sem var 5,5 kg og fékkst á Malareyri þann 19. júní. Þess má geta að Hákon Guðmundsson fékk fyrsta lax sumarsins sama morgun. Myndin hér að neðan er af bikarlaxinum og er það Bragi Hlíðar Kristinsson sem fékk þennan 18 punda lax í Vatnsleysuhyl þann 4. september.

Til baka

Veiðileyfi

Fnjóská
Ekkert laust eins og er.

Fnjóská - Svæði 5
Ekkert laust eins og er.