Við notum vafrakökur til að greina upplýsingar um notkun vefsíðunnar til að bæta efni og birta markaðsefni. Nánar um vafrakökur LEYFA VAFRAKÖKUR

Fnjóská

Ég átti veiðileyfi í Fnjóská í byrjun ágúst sl. sumar eins og undanfarin ár. Fnjóská er ekki allra og reynir á þolrif veiðimanna, hún er bæði straumstríð og vatnsmikil og laxagengd á tíðum heldur dræm þótt henni sé hjálpað með seiðagjöf. Því er sjaldnast um nein uppgrip í laxi að ræða en á ákveðnum stöðum getur verið nóg af vænni sjóbleikju sem bætir upp laxafæðina.

 Treg veiði

 Eftir tveggja daga veiði hafði ég fengið slatta af bleikju, tveggja til þriggja punda, einn dávænan sjóbirting og fimm punda urriða sem greinilega hafði ekki gengið til sjávar en þrifist vel í ánni eða hliðarlækjum hennar því að hann var vel á sig kominn. Ekki var hægt að verjast þeirri hugsun að hann hefði komist í feitt þar sem eru sleppiseiðin hans Sigurðar Ringsted sem fóstrar Fnjóská af mikilli umhyggju.

 Á þriðja degi hafði ég sem sagt ekki séð ugga á laxi, hvorki í ánni eða hjá öðrum veiðimönnum, sem reyndar voru orðnir fáliðaðir á bökkunum, sumum fannst ekki taka því að koma í þessa ördeyðu. En ég er þeirrar skoðunar að erfitt sé að vita með vissu hvað á sér stað niðri í vatninu, alltaf megi eiga von á ævintýrum og það geti allt eins verið maður sjálfur sem lendir í þeim.

 Síðasta morguninn hugðist ég byrja á efsta veiðistað á laxasvæðinu, Flúðum, sem er margslunginn hylur. Best er að veiða hann ofanverðan af eystri bakkanum en neðanverðan vestan megin frá. Þegar ég kom á staðinn klukkan rúmlega sjö var þar maður að setja saman og búa sig undir að hefja veiðar og ekkert við því að segja. Við heilsuðumst og ég sagðist mundu fara niður á Eyrarbreiðu, sem reyndar er minn eftirlætisstaður, víðáttumikill með lygnum straumi, dæmalaust fallegt vatn. Bleikja liggur í bakstreyminu innan við strenginn efst, laxinn við stórgrýtið ofarlega á breiðunni að austanverðu og í rás neðan við steinana alveg niður undir brot.

 Á Eyrarbreiðu

 Ég fékk enga svörun hjá bleikjunum, strengbúunum, en þegar kom niður fyrir grjótið fann ég fyrir laxi, ósköp dauflega, hann rétt nippaði í fluguna, ekki var um töku að ræða. Ég færði mig þrjú skref andstreymis, kastaði sömu flugunni, Undertaker númer 8, þrisvar á staðinn en ekkert gerðist. Ég hugsaði með mér að þarna væri fiskurinn og nú væri ráðið að þrákasta á staðinn, skipta ört um flugur, sýna honum allar gerðir og stærðir og hætta ekki fyrr en honum leiddist þófið og ryki á agnið.

 Þessi þaulhugsaða hernaðaraðgerð bar ekki tilætlaðan árangur og eftir að hafa kastað stuttum og löngum köstum, þverkastað og langkastað í hartnær klukkustund hélt ég niður breiðuna en neðarlega á henni er skvompa þar sem mér hefur tekist að særa upp lax. Allt kom fyrir ekki, ég varð ekki var og óð til lands. Orðinn kaffiþurfi seildist ég eftir brúsanum í allsnægtakassanum aftur í bílnum, settist á bakkann þar sem eyrarrósirnar teygðu bleikrauð krónublöðin upp úr fjólubláum bikarnum. Á grundirnar sló þessari blárauðu slikju sem einkennir norðlenskar áreyrar á haustin.

 Eftir að hafa lokið úr kaffikrúsinni teygði ég mig eftir stönginni til að skipta um flugu, opnaði fluguboxið og fyrir valinu varð Bleikála, þríkrækja nr. 10, einföld heimasmíð, sem hefur gefið þónokkra fiska, bæði bleikjur og laxa. Ég hnýtti hana á tauminn, reis á fætur og óð út undir stóru steinana, rakti línu út af hjólinu og kastaði á staðinn þar sem ég hafði orðið var. Línan fór vel í hægum straumnum og þegar fluguna bar niður á tökustaðinn í þriðja sinn var hrifsað í hana - en laxinn festist ekki. Ógerningur var að vita hvernig hann hafði borið sig að. Þetta var snöggt högg og því líklegast að ég hefði hvekkt hann eða sært þótt grannt væri tekið. Eftir nokkur köst til viðbótar ákvað ég að yfirgefa Eyrarbreiðu, hélt upp á Litlubreiðu og þaðan niður í Strauma og Stekkjarhyl, hafði undir ýmist Útfararstjórann eða Bleikálu en varð hvergi var.

 Klukkan var nú langt gengin í ellefu og ég hafði eitthvert óljóst hugboð um að eitthvað óvænt biði mín á Flúðum. Ekki sá ég til mannsins sem þar hafði verið um morguninn og vissi því ekki hvort hann hefði orðið var við fisk. Er ég kom niður á kjarrivaxinn bakkann gerði ég mér ljóst að hér réðist það hvort ég færi heim laxlaus eða ekki. Einhvern veginn sagði mér svo hugur að þótt búið væri að fara yfir staðinn væri ekki loku fyrir það skotið að ég gæti átt þar von í fiski.

 Bleikála sannar sig

 Bleikála var undir, ég ákvað að láta hana kanna hylinn, hnýtti upp á taumnum svona til vonar og vara. Fyrstu köstin voru stutt, ég byrjaði alveg upp við flúðirnar sjálfar en lengdi svo í og kastaði þvert yfir strenginn sem fellur með austurbakkanum. Þetta er veiðilegur staður og einhverju sinni veiddi ég þarna fjögurra punda bleikju en nú hreyfði ég ekki fisk. Neðan við strenginn hefur hlaðist upp malarhaft sem veitir meginvatninu yfir að vesturbakkanum. Ég óð út á malarkastið, þaðan náði ég vel yfir vesturálinn. Þar gengur á einum stað berggangur út í ána. Ég þandi mig sem mest ég mátti og var nokkuð ánægður með kastið, flugan barst niður undir klapparbríkina. Þá var tekið, þungt og ákveðið. Það var líkt og þétt handtak og mér fannst eins og fiskurinn segði ögrandi:

 “Ég hefi ekkert á móti því að kljást við þig, karlinn, og þú munt komast að því fullkeyptu áður en lýkur.”

 Satt að segja voru aðstæður mér ekki hagstæðar. Vesturállinn óvæður og mér var nauðugur einn kostur að halda aftur austur yfir þar sem voru staksteinóttar grynningar og brot a.m.k. 500 metra niður í Hálspoll. Mig hryllti við þeirri tilhugsun að þurfa að hlaupa á eftir laxinum ef hann kysi að fara þá leið. Ég vissi strax að þetta var ekki smálax. Það hvarflaði andartak að mér að ég væri nú loksins kominn með 20 punda fisk á færið en vék þeirri hugsun skjótt frá mér til að forðast óþarfa taugaskjálfta. Ég yrði að halda ró minni, einbeita mér að því að klúðra engu.

 Er hann 20 pund?

 Ég ákvað að freista þess að taka úr honum mesta hrollinn í dýpinu við vesturbakkann, reyna að halda stíft við hann, vona að hann yrði spakur og færi ekki niður úr hylnum. Ég óskaði þess nú að ég væri með 13 feta tvíhenduna í stað einhendunnar en því varð ekki breytt úr þessu. Laxinn var gífurlega sterkur og leitaði alltaf upp í strauminn en fyrir það var ég yfirmáta þakklátur. Hann lyfti sér aldrei upp í vatnsskorpuna hvað þá að hann stykki og þegar liðnar voru tuttugu mínútur án þess að ég sæi gripinn fannst mér allt eins líklegt að hann væri a.m.k. 20 pund.

 Þegar viðureignin hafði staðið hálfa klukkustund sýndi laxinn fyrstu þreytumerki og hann lét sig sakka undan straumi. Þá var ekki um annað að gera en reyna að teyma hann yfir að austurlandinu og ljúka viðureigninni þar. Ég varð að komast í land ef hann skyldi taka strikið niður ána. Ég lagði af stað, tók þétt en ákveðið á laxinum og hann fylgdi mér eftir. Ég undraðist hvað hann var þægur í taumi en sá líka, þegar hann gúlpaði yfirborðið, hvers lags flykki þetta var. Hann hlaut að vera 20 pund. Enginn tími var nú til að hugleiða það, ég varð að komast upp á grasbakkann sem náði mér vel í mitti. Ég hét á fiskinn að vera nú rólegan andartak, losaði ögn á hjólbremsunni, greip hægri hendinni um snarróttarpunt og vó mig upp. 

 Ég var fljótur að setja mig aftur í stellingar, vatt inn línu og fann að laxinn var enn á. Ég þóttist nú kominn í kjörstöðu, hafði fiskinn fyrir neðan mig, átakið var beint upp. Þegar ég tók fast á honum velti hann sér og þá sást hvílíkur flanki blasti við mér. Hann hlaut að vera metri að lengd og þá væri hann líka 20 pund. En varasamt var að vera með einhverjar veltikúnstir við laxinn því að þá ókyrrðist hann og ég vildi ekki fyrir mitt litla líf missa hann aftur yfir að vesturlandinu, hvað þá niður grunnbrotin. Ég mýkti því átakið, ákvað að fara mér að engu óðslega og dauðþreyta fiskinn áður en ég reyndi að landa honum. Ég var einn og allslaus, hafði hvorki háf né sporðsnöru, hvað þá ífæru, og bakkarnir svo háir að ekki var viðlit að landa honum neins staðar.

 Tæp klukkustund var liðin frá því að laxinn tók en það var lítið farið að draga af honum, árstraumurinn sá honum fyrir nógu súrefni. Fjöldi bíla fór um þjóðveginn handan árinnar og ég fór að vona að einhver ökumaðurinn staldraði við og stigi út úr bílnum þegar hann sæi mann vera þreyta stórlax. Þá ætlaði ég að kalla til hans og biðja hann að fara yfir brúna og aka troðninginn niður lyngmóana að ánni og rétta mér hjálparhönd. Mér fannst þetta þó innst inni hálfskammarlegt og varð feginn að ekki þurfti til þess að koma, bílarnir óku hver sína leið, ýmist um Ljósavatnsskarð eða yfir Víkurskarð.

 Erfið löndun

 Loks kom að því að laxinum fór að fatast sundið, hann grynnkaði á sér og sporðurinn kom upp úr vatninu og slóst dauflega til og frá, hann var greinilega farinn að lýjast enda ekki nema von eftir klukkustundar átök. Af og til sýndi hann ljósan kviðinn og það leyndi sér ekki að þetta var stór fiskur. Nú hlaut þessum leik að ljúka en hvernig átti ég að ná laxinum á land? Spölkorn neðar var sandvik en vegna undangenginna vatnavaxta var sandbakkinn svo brattur að ekki var viðlit að stranda honum eða draga hann þar upp. En framan við vikið var dálítið dýpi sem ég ákvað að leiða laxinn niður í og sjá svo hverju fram yndi. Þrír, stórir steinar stóðu þétt saman í fjöruborðinu efst í pollinum og auðvitað synti laxinn strax að þeim og virtist ætla að nugga úr sér fluguna.

 Nú voru góð ráð dýr. Ég snaraði mér niður í ána, óð út fyrir fiskinn og náði honum frá steinunum. Þá var þessi kempa þrotinn að kröftum og lagðist á hliðina. Ég stýrði laxinum upp að bakkanum, tók hann sporðtaki með hægri hendi og ætlaði að svipta honum á land en missti takið á miðri leið. Laxinn barðist um, lamdi sporðinum í sandeðjuna og jós yfir mig aurnum svo ég sá ekki út um gleraugun. Ég henti frá mér stönginni en þreifaði báðum höndum undir fiskinn og fleygði honum langt upp á bakkann. Síðan klöngraðist ég upp úr ánni, veitti laxinum náðarhöggið og skolaði af honum mesta óþverrann en hraðaði mér síðan að bílnum, fálmaði eftir málbandinu, brá því á laxinn. Frá snoppu og aftur í sporðsýlingu voru 92 sentímetrar. Þetta var ekki 20 punda fiskur.

 Klukkuna vantaði nú tuttugu mínútur í eitt. Viðureignin hafði staðið hér um bil fimm stundarfjórðunga. Ég beið ekki boðanna, þvoði laxinn vandlega og þreif sjálfan mig, hafði ekki fyrir því að fara úr vöðlunum en ók í hendingskasti yfir á Svalbarðseyri og renndi í hlað á Sigtúnum, kallaði út Sigurð Fnjóskárfóstra og heimtaði vog. Meðan Sigurður var að leita að pundaranum kom Hulda konan hans út fyrir garðshliðið, leit á laxinn þar sem hann lá í grasinu og sagði:

 “Já, þetta er svona fimmtán punda fiskur.”

 Ég fyrtist við og taldi líklegra að hann væri sautján ef ekki átján pund en hún hristi bara höfuðið og sneri þegjandi frá. Sigurður brá vigtarkróknum undir tálknbarð laxins og viti menn. Vogin sýndi 7,6 kíló. Ojæja, þar hafði ég það. Þetta var fimmtán punda fiskur. Ég er farinn að kvíða fyrir því að setja í þann 20 punda!

Gylfi Pálsson

Greinin birtist í Veiðimanninum nr. 165 í júní 2001.